Viðskipti innlent

Tugir fyrrverandi stjórnenda banka fá bakreikninga

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Rúmlega 30 fyrrverandi stjórnendur Glitnis og Kaupþings hafa fengið bakreikning frá skattayfirvöldum vegna söluréttasamninga. Krefjast skattayfirvöld að samningarnir verði skattlagðir sem launatekjur en ekki fjármagnstekjur. Dæmi eru um að menn hafi hagnast um hálfan milljarð á samningunum.

Skattyfirvöld hafa um nokkurt skeið skoðað söluréttarsamninga sem starfsmönnum gömlu bankanna bauðst. Vilja þau meina að slíka samninga beri að skattleggja sem launatekjur en ekki fjármagnstekjur.

Söluréttarsamningar virkuðu þannig að starfsmönnum gafst færi á að kaupa hlutabréf með söluréttartryggingu fyrirtækisins. Ef bréfin hækkuðu í verði gátu þeir valið að eiga bréfin eða selja þau en ef þau lækkuðu gátu þeir gengið frá samningnum sér að kostnaðarlausu. Stjórnendurnir greiddu 10% fjármagnstekjuskatt þegar bréfin voru seld en greiddu ekkert vegna söluréttarins. Þessu vill Ríkisskattstjóri breyta og hefur þegar unnið málið fyrir yfirskattanefnd og héraðsdómi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa nú rúmlega 30 fyrrverandi stjórnendur Glitnis og Kaupþings fengið endurákvörðun opinberra gjalda frá skattyfirvöldum vegna samninganna. Meðal þeirra eru fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson og fyrrverandi forstjóri Glitnis, Bjarni Ármannsson. Málin munu þó vera misjafnlega langt á veg komin.

Hæstu fjárhæðirnar voru hjá Kaupþingi en dæmi eru um að menn hafi hagnast um allt að fimm hundruð milljónir króna. Í heildina nemur tekjuskattsstofninn nokkrum milljörðum króna.

Enn er unnið að því að greina söluréttarsamninga í öðrum fyrirtækjum svo það má búast við að stjórnendur annarra fyrirtækja muni innan tíðar fá bréf frá Ríkisskattstjóra inn um lúguna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×