Erlent

Bein Jóhannesar skírara í klausturrústum

Óli Tynes skrifar
Málaverk af Jóhannesi skírara eftir Leonardo da Vinci.
Málaverk af Jóhannesi skírara eftir Leonardo da Vinci.

Bein af Jóhannesar skírara eru fundin í rústunum af fornu munkaklaustri í Búlgaríu að sögn þarlendra yfirvalda.

Lítil steinkista með beinunum var opnuð þar við hátíðlega athöfn að viðstöddum biskupum, prestum og ráðherrum.

Klausturrústirnar eru frá fimmtu öld. Þær eru á eynni Sveti Ivan á Svartahafi. Í kistunni var brot úr höfuðkúpu, bein úr kjálka og handlegg og ein tönn.

Fornleifafræðingar röktu slóðina

Í grískri áletrun á steinkistunni var tilvísun til 24. júní en talið er að það sé fæðingardagur Jóhannesar.

Það voru fornleifafræðingar sem röktu slóðina að kistunni sem var felld inn í altari klaustursins.

Bozhidar Dimitrov er ráðherra án ráðuneytis í ríkisstjórn Búlgaríu. Hann var áður framkvæmdastjóri þjóðminjasafns Búlgaríu.

Dimitrov sagði að kistan hefði fundist nákvæmlega þar sem fornleifafræðingarnir sögðu til um.

Ekki er nákvæmlega vitað hvernig beinin enduðu á eynni. Ráðherrann sagði að hugsanlega hafi þau verið gjöf frá kristnu kirkjunni í Konstantínópel meðan Búlgaría var hluti af Bysantiska keisaradæminu.

Höfuðið borið fram á fati

Eftir er að aldursgreina beinin. Sérstaklega er mikilvægt að tönn skuli vera þar á meðal, því með greiningu á tönnum er hægt að segja til um með nokkurri nákvæmni hvar viðkomandi bjó í lifanda lífi.

Jóhannes skírari er sérstaklega dýrkaður í austurlensku réttrúnaðarkirkjunni. Hann sagði fyrir um komu Krists áður en hann var hálshöggvinn að skipan Heródesar konungs. Höfuð hans var borið fyrir konunginn á fati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×