Erlent

Upphlaup útaf erfðabreyttum laxi

Óli Tynes skrifar

Laxinn sem fyrirtækið Aqua Bounty Technologies hefur erfðabreytt vex tvöfalt hraðar en villtur lax.

Rétt er að taka fram að meðfylgjandi myndir sýna hefðbundið laxeldi í Noregi.

Vísindamenn bandarísku Matvælastofnunarinnar segja að það sé jafn öruggt að borða laxinn og venjulegan villtan lax úr Atlantshafi.

Líffræðilega sé enginn munur sem skipti máli á vítamínum, steinefnum eða fitusýrum.

Þá er sagt að mjög litlar líkur séu á að fiskurinn geti haft skaðleg áhrif á umhverfið.

Þessu eru ýmis neytenda, dýraverndar- og umhverfissamtök ósammála. Þrjátíu og ein slík hafa tekið höndum saman um að berjast gegn því að laxinn fari á markað.

Þau segja að Matvælastofnunin byggi niðurstöður sínar á alltof litlu úrtaki.

Samskonar tilraunir á silingi í Kanada hafi leitt í ljós að fiskarnir stækkuðu að vísu hraðar, en að sumir þeirra hafi verið mjög vanskapaðir.

Það gæti því ógnað villistofnum ef erfðabreyttu laxarnir slyppu úr kvíum sínum.

Á Íslandi er engin löggjöf um erfðabreytt matvæli. Reglur um að þau verði sérstaklega merkt eru í þó vinnslu.

Þá er fyrirhugað að taka upp regluverk ESB í þessum málum. Með þeim þarf leyfi fyrir markaðssetningu á öllum erfðabreyttum matvælum, áhættumat og fleira.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×