Erlent

Tæplega 350 manns hafa látist í Indónesíu

Kona sem missti bæði hús og mann í flóðbylgju á Pagai-eyju og dætur hennar tvær gráta missi fjölskyldunnar. Fréttablaðið/AP
Kona sem missti bæði hús og mann í flóðbylgju á Pagai-eyju og dætur hennar tvær gráta missi fjölskyldunnar. Fréttablaðið/AP

Tala látinna á Mentawai-eyjum í vesturhluta Indónesíu var í gær komin í 343 eftir leit björgunarsveita. Stjórnvöld telja að hundruð manna sem enn er saknað kunni að hafa borist á haf út með flóðbylgjunni sem þar reið yfir 25. október. Eldgos í fjallinu Merapi á eyjunni Jövu hófst stuttu eftir jarðskjálftann sem hratt flóðbylgjunni af stað.

Gosið sem kostaði 33 lífið hjaðnaði um stund, en hefur nú hafist aftur, þótt engar fregnir séu um frekari mannskaða eða eignatjón.

Í gær var haldin fjöldaútför meðan drunurnar í Merapi-fjalli lægði. Náttúruhamfarirnar, sem áttu sér stað á ólíkum stöðum Indónesíu á innan við sólarhring, hafa reynt verulega á viðbúnað almannavarna.

Eyjabúar á Mentawai, þar sem þriggja metra há alda reið yfir og sópaði burt húsakosti, hafa hafst við undir tjalddúkum. Fjöldi fólks hefur líka flúið til fjalla og neitar að snúa aftur heim af ótta við að önnur flóðbylgja ríði yfir.

Stjórnvöld segja að rándýrt viðvörunarkerfi sem sett var upp eftir flóðbylgjuna sem reið yfir á annan í jólum 2004 hafi bilað fyrir mánuði síðan þar sem því hafi ekki verið almennilega við haldið. Þýskur starfsmaður verkefnisins segir aftur á móti að kerfið hafi virkað, en vegna þess hve uppruni skjálftans hafi verið nærri Mentawai-eyjunum hafi reynst ómögulegt að vara íbúa þar við áður en flóðbylgjan reið yfir. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×