Innlent

Jurtaolía gæti skapað fjölda starfa víða um land

Fjöldi starfa gæti skapast í öllum landshlutum við að framleiða jurtaolíu á farartæki. Framtíðardraumur þeirra sem standa að tilraunaverkefni er að Íslendingar framleiði sjálfir alla sína olíu.

Við urðum vitni að því á Stöð 2 í gær þegar bóndinn á Þorvaldseyri pressaði olíu úr repjufræjum, hellti á tankinn og ók síðan í fyrsta sinn traktor sem knúinn var eldsneyti af eigin akri. Tilraunaverkefnið hófst fyrir tveimur árum þegar repju var sáð á níu stöðum á landinu, en þessi jurt er afbrigði af rófu.

Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri Landbúnaðarháskóla Íslands að Keldnaholti, segir að af þessum níu stöðum megi segja að ræktunin hafi ekki lifað veturinn á fimm stöðum. Á fjórum stöðum lifði hún vel og þar reyndist uppskeran góð.

Jónatan leggur áherslu á að menn fari hægt af stað og fikri sig áfram. Ræktunin hafi gengið í öllum landshlutum en einnig mistekist í öllum landshlutum. Það sé, eins og er, ekki hægt að setja sérstök mörk. Hann reikni þó með að rækta megi repjuna bæði norðanlands og sunnan.

Jurtaolíunni sem fór á traktorinn var blandað saman við hefðbundna dísilolíu. Siglingastofnun, sem leiðir verkefnið, á hins vegar tækjabúnað til að vinna úr henni bíódísil og næsta skref er að prófa olíuna á smábát. Langtímamarkmiðið er stórfelld ræktun og framleiðsla, og jafnvel svo mikil að fullnægi þörfum þjóðarinnar.

Jón Bernódusson, verkfræðingur hjá Siglingastofnun, segir að Íslendingar eigi mikið af landi sem nota megi til að rækta repju. Þá skapist störf við að framleiða olíu. Þetta spari gjaldeyri og Íslendingar geti þá orðið sjálfum sér nægir um eigin olíu. Þetta sé lífræn olía og hún mengi auk þess ekki jafn mikið og jarðefnadísill.

Ólafur Eggertsson bóndi segir að afla verði mikillar þekkingar áður en farið verði út í stórræktun. Íslendingar séu hins vegar með nóg af frábæru ræktunarlandi og möguleikarnir séu vissulega fyrir hendi, ef menn standi rétt að málum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×