Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs heldur áfram að lækka

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs Íslands hefur lækkað um 24 punkta undanfarna viku. Þannig stóð álagið til 5 ára í lok dagsins í gær í 318 punktum (3,18%) en um miðja síðustu viku var álagið 342 punktar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í maímánuði lækkaði álagið jafnframt umtalsvert, eða um tæpa 60 punkta en í upphafi mánaðarins stóð álag ríkissjóðs Íslands í tæpum 380 punktum. Þetta er nokkuð meiri lækkun en sést hefur hjá öðrum Evrópuríkjum á sama tímabili.

Mögulegt er að jákvæðar fréttir á borð við samþykkt annarrar endurskoðunar AGS og samkomulag Seðlabanka Íslands við seðlabankann í Lúxemborg um kaup á útistandandi skuldabréfum Avens hafi haft hér einhver áhrif, en með þeirri stækkun gjaldeyrisforðans sem þessir tveir atburðir fela í sér má segja að líkur á greiðslufalli af erlendum skuldabréfum ríkissjóðs næstu tvö árin séu orðnar afar litlar.

Einnig má benda á að undanfarin uppkaup Seðlabanka og ríkissjóðs á evrubréfum ríkisins með gjalddaga í desember 2011 skapa mögulega söluþrýsting á skuldatryggingum á Ísland. Erfitt er þó að henda reiður á hvað nákvæmlega býr að baki en benda má á að á sama tíma hafa einnig borist tíðindi sem seint geta talist jákvæð fyrir Ísland.

Eins og skemmst er að minnast sendi EFTA í síðustu viku frá sér tilkynningu um að Ísland hafi brotið gegn Evróputilskipun um innstæðutryggingar með því að mismuna innlendum og erlendum innistæðueigendum. Ljóst er þó að óróinn í Evrópu í tengslum við vandræði Grikklands og þær vangaveltur sem vaknað hafa í kjölfarið um stöðu annarra skuldsettra evruríkja hafa ekki haft áhrif til hækkunar á skuldatryggingaálag Ríkissjóðs Íslands undanfarnar vikur, að því er segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×