Erlent

Töfin ekki sök saksóknara

Asil Nadir flúði Bretland fyrir sautján árum til að forðast réttarhöld.
nordicphotos/AFP
Asil Nadir flúði Bretland fyrir sautján árum til að forðast réttarhöld. nordicphotos/AFP
Asil Nadir, 69 ára auðkýfingur frá Kýpur, þarf að bíða í meira en ár eftir réttarhöldum í Bretlandi. Hann sneri sjálfviljugur aftur til Bretlands í síðasta mánuði eftir að hafa flúið fyrir sautján árum, þegar fyrirtæki hans fór á hausinn.

Nadir var þá sakaður um að hafa dregið sér 34 milljónir punda úr fyrirtækinu, en flúði land áður en réttarhöld hófust. Hann vonast til þess að verða sýknaður nú þegar hann hefur gefið sig fram.

„Réttarhöldin eru hafin. Þeim hefur verið frestað í mjög langan tíma, en tæknilega eru þau hafin,“ segir William Clegg, lögmaður Nadirs, sem vill að þau fari sem fyrst af stað á ný.

David Bean, sem verður dómari í málinu, hefur gefið saksóknara frest fram í desember til að leggja fram málflutning sinn. „Þessi sautján ára töf er ekki sök saksóknara,“ segir Bean, sem ákvað til bráðabirgða að réttarhöldin sjálf hefjist ekki fyrr en 3. október á næsta ári.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×