Viðskipti innlent

Nauðsynlegt er að jafna straum ferðafólks yfir árið

Hvalaskoðun er hægt að stunda allt árið um kring og hafa meðal annars verið gerðar út ferðir frá Reykjavík í allan vetur. Samtök ferðaþjónustunnar leggja áherslu á að byggja upp afþreyingu og þjónustu fyrir ferðamenn utan þess tíma sem hingað til hefur verið háannatími. Með því og auknum stuðningi megi laða hingað erlenda ferðamenn og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar allt árið um kring. Markaðurinn/Pjetur
Hvalaskoðun er hægt að stunda allt árið um kring og hafa meðal annars verið gerðar út ferðir frá Reykjavík í allan vetur. Samtök ferðaþjónustunnar leggja áherslu á að byggja upp afþreyingu og þjónustu fyrir ferðamenn utan þess tíma sem hingað til hefur verið háannatími. Með því og auknum stuðningi megi laða hingað erlenda ferðamenn og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar allt árið um kring. Markaðurinn/Pjetur
Fyrirtæki í ferðaþjónustu búa sig undir metsumar í ferðamennsku, afrakstur uppbyggingarstarfs fyrri ára, óvænts eldgoss og veikrar stöðu krónunnar. Spáð er mikilli fjölgun ferðafólks hér næstu árin. Að áratug liðnum er gert ráð fyrir að 500 þúsund fleiri gestir sæki landið heim á ári hverju en núna gerist. Það er tvöföldun miðað við stöðuna eins og hún er nú.

Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir brýnt að dreifa álaginu og halda áfram að þróa ferðaþjónustuna frá því að byggjast bara upp í kring um sumarvertíð. Í því verkefni þurfi hins vegar margir að leggjast á árar og átakið þurfi að vera samtaka. Hann vísar til reynslu Finna í þessum efnum, en á ársfundi SAF undir marslok tók einmitt til máls fyrrum ferðamálastjóri Finna og greindi frá því hvernig byggð var upp vetrarferðamennska þar.

Þá segir Árni fleira þurfa til að koma, svo sem markvissari innspýting til uppbyggingar og verndunar á vinsælum ferðamannastöðum með gjaldtöku. Langt er þó frá því að vera sátt um leiðir í þeim efnum. Veturinn er lykillinn
ferðafólk við Svartafoss í Skaftafelli Merki eru um að straumur ferðamanna hingað til lands verði með mesta móti í sumar. Íslensk flugfélög hafa bætt við ferðum og bókanir auknar hjá erlendum flugfélögum. Markaðurinn/GVA
„Mér fannst mjög áhugavert að heyra hvernig Finnar fóru í gegnum sína kreppu 1990. Á sama tíma og þeir voru með gífurlegt tap á sínum fjárlögum, útflutningur hrundi og sárvantaði gjaldeyristekjur og störf, þá var lögð áhersla á að leggja aukið opinbert fé í markaðssetningu og svo fjárfest í nýsköpun,“ segir Árni og kveður marga kannast við afrakstur þeirrar vinnu, svo sem hvernig Finnum hafi tekist að eigna sér jólasveininn á sínum tíma. „Núna er veturinn aðalferðamannatíminn hjá þeim, en vetrarferðamennska var varla til í landinu á þessum tíma þegar Finnar gengu í gegnum þessa kreppu.“ Árni bendir á að pólitískt hugrekki hljóti að hafa þurft til í Finnlandi að auka fjárveitingar inn í ferðaþjónustuna, á sama tíma og skorið var niður í velferðarkerfinu, heilbrigðisþjónustu, menntun og fleiri þáttum. „Þeir voru með gífurlegt tap á fjárlögum, en sáu þetta sem leið út úr kreppunni.“

Hér heima viðurkennir Árni að nokkur vandi liggi í því að miklu fleiri erlendir gestir sæki landið heim yfir sumartímann, þótt eitthvað hafi verið gert í því að laða hingað fólk á öðrum árstímum. „Þessari þróun þurfum við að vinna gegn og auka heilsárstúrisma. Og það sýnir sig frá Finnlandi að það er ekkert lögmál að land á norðurslóðum hafi meiri ferðamennsku yfir sumartímann. Það getur alveg snúist við,“ segir hann og bendir um leið á að gestir sem sæki Finnland heim yfir veturinn skili mun meiru en þeir sem koma að sumarlagi. „Þeir kaupa miklu meiri afþreyingu en hinir, vélsleðaferðir, hundasleðaferðir og alls konar þjónustu aðra.“ Opinberan stuðning þarf
Árni Gunnarsson
Árni segir ljóst að fyrirtæki í ferðaþjónustu leggi nú þegar mikla fjármuni í markaðssetningu. „Og leggja í dag til miklu meira en hið opinbera. Það hefur hins vegar sýnt sig að með því að hið opinbera komi með greininni inn í þennan pakka, þá verða skilaboðin sterkari og við getum náð meiri slagkrafti og árangri.“

Stuðningur ríkisins segir Árni líka að geti verið sú viðbót sem til þarf til þess að flugfélög og aðrir sem boðið hafi þjónustu yfir sumartímann, leggi í að bjóða ferðir og þjónustu utan þess tíma sem hingað til hefur verið háannatími. „Töluvert er af flugfélögum, leiguflugi til dæmis, sem bara koma hingað á sumrin og ekki eru í því að þreyja með okkur þorrann. Þau leggja kannski ekki mikið í vöruþróun og nýsköpun heldur selja bara náttúruna eins og hún er. En það á við um ferðaþjónustuna eins og aðrar greinar að eitthvað stuðningskerfi þarf til að byggja upp nýja þjónustu. Og við horfum til þess að hið opinbera þurfi að taka meiri þátt með okkur. En greinin er að gera mjög mikið og menn eru að auka mikið framboð og leggja meiri peninga í markaðssetningu.“

Og þótt meira þurfi ef til vill til að koma segir Árni heyra frá félagsmönnum að nokkur árangur sé þegar að nást. „Inn er að koma töluvert mikið meira af bókunum en við sáum í fyrra. Flugfélögin sem eru innan okkar vébanda, Icelandair og Iceland Express, eru að auka framboð sitt verulega og svo sjáum við félög á borð við Air Berlin, Germania, Lufthansa, SAS og jafnvel fleiri sem inn koma yfir sumarið eru að bæta við sig. Sumarið í sumar lítur því mjög vel út og við höfum miklar væntingar til þess að það skili okkur miklum tekjum.“ Veturinn og vetrartímabilið segir Árni hins vegar að sé helsta áhyggjuefnið. „Við sáum í vetur í fyrsta sinn í mörg ár, eftir miklar tilraunir til þess að lengja ferðamannatímabilið, að aðeins var að draga saman á því tímabili. Það varð smá bakslag í árstíðasveifluþróuninni.“

Þættir sem svo aftur gætu ýtt undir meiri straum ferðamanna utan hefðbundins háannatíma og horft er til segir Árni að séu til dæmis tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpan í Reykjavík og menningarhúsið Hof á Akureyri. „Þeir sem sækja þessi hús til ráðstefnuhalds eða til annarra hluta koma ekki í júní, júlí, eða ágúst, heldur fremur í september, október, þegar ráðstefnur eru haldnar.“ Eins segir Árni horft til þess að byggja upp og bjóða fleiri þætti í afþreyingu allt árið um kring. „Hér eru til dæmis stundaðar jöklagöngur allt árið. Hvalaskoðun hefur verið stunduð frá Reykjavík í allan vetur og slíka þætti þarf að ýta undir og efla.“ Gjaldtaka skiptir máliÞá segir Árni ekki nægja að setja fjármuni í markaðssetningu, einnig þurfi að huga að verndun og viðhaldi hér heima fyrir. „Það hefur verið okkur áhyggjuefni að sumar af náttúruperlum landsins eru að verða komnar að þolmörkum og jafnvel á sumum tímum yfir þau, svo sem ef horft er til Geysissvæðisins og Landmannalauga, svo einhver dæmi séu nefnd. Vantað hefur aukið fjármagn til að bæta þar úr og svo inn í þjóðgarðana okkar. Við höfum búið til stóra þjóðgarða en vantar heilmikið fjármagn til að upplýsingagjöf, stígagerð og annað verði með þeim hætti sem best verður á kosið.“ Árni segir að þótt mismunandi viðhorf hafi verið til gjaldtöku á ferðamannastöðum segist hann sjálfur hafa verið talsmaður þess að haga henni þannig að þeir sem njóti borgi. „Að þeir sem fara á staðinn borgi fyrir þá þjónustu með einum eða öðrum hætti.“

Nefnd sem fjallaði um málið fékk þau skilaboð frá Samtökum ferðaþjónustunnar að skoða fremur hagkvæmar leiðir á borð við þjóðgarðapassa (í anda veiðikortsins) þar sem aðgangur fengist að fleiri en einum þjóðgarði með kaupum á einum passa. „Lykillinn er að hafa þetta einfalt og hagkvæmt, ekki þannig að komið sé upp rukkunarskúrum úti um allar trissur.“

Eins segir Árni að gæta verði að því að gjald sem innheimt sé með þessum hætti verði ekki hluti af almennum skattstofni, heldur skili peningurinn sér beint á viðkomandi staði. Leið sem þessi telur Árni að sé mun vænlegri en gjaldtaka í ætt við komugjöld til landsins sem leggist jafnt á alla ferðamenn. Reynslan annars staðar frá sýni að það skili meiri árangri að draga úr kostnaði við ferðalagið á staðinn, en bjóða svo upp á fjölbreytta þjónustu gegn gjaldi í landinu sjálfu. Vilja samt kasta krónunniMikil aukning ferðamanna sem fyrirséð er í sumar segir Árni að skrifist að hluta til á hvernig Ísland hafi verið áberandi í umræðu á heimsvísu. Þótt fréttir af hruni fjármálafyrirtækja séu í eðli sínu slæmar hafi gjarnan fylgt fréttunum myndskeið af íslenskri náttúru. Þá spili náttúrlega inn í veikt gengi krónunnar. „Menn sjá hér möguleikann á að verð lækki eitthvað í erlendri mynt, en það er kannski skammgóður vermir þegar mjög mikið af okkar þjónustu byggir á innfluttri vöru.“ Dæmi um gengisbundnar sveiflur í ferðamennsku séu hins vegar þekkt, svo sem frá Tyrklandi þar sem líran hafi gefið eftir gagnvart evru. Í kjölfarið hafi aukist straumur ferðamanna frá Evrópu til Tyrklands, um leið og samdráttur hefur verið á vinsælum ferðamannastöðum í evrulöndum, svo sem á Spáni.

„En myntin býður upp á sveiflur og við í Samtökum ferðaþjónustunnar höfum verið mjög fylgjandi því að tekin verði upp önnur mynt en krónan. Þótt vermirinn sé skammgóður núna þá eru þessar aðstæður ákaflega erfiðar fyrir alla þá sem í viðskiptum reyna að setja saman áætlanir til lengri tíma. Það er agalega erfitt að vinna með þetta.“

Árni segir ferðamannatímabilið fara í gang þegar á vormánuðum. „Þó það nái hámarki í júní og júlí, þá er maí strax orðinn mjög sterkur mánuður. En á sumum stöðum á landinu er háönnin ekki nógu löng, kannski ekki nema sex til átta vikur. Þess vegna hef ég einmitt haldið því fram að gífurleg tækifæri séu í vöruþróun og afþreyingu á landsbyggðinni á öðrum mánuðum ársins,“ segir hann og telur að hér sé allt það til staðar sem þurfi til að byggja upp öfluga heilsársferðamennsku. „En til þess þarf öflugan stuðning, bæði frá fyrirtækjunum og hinu opinbera.“ Árni áréttar að ekki sé horft til ríkisins með neinum betlihug. „Það skapar bara meiri veltu og næst meiri kraftur ef við náum hinu opinbera í bátinn með okkur í þessum efnum.“ Hann segist finna fyrir ákveðnum skilningi á þessu hjá ráðamönnum, þótt ef til vill þurfi að kynna einstökum þingmönnum betur samhengi hlutanna. „Og í því vinnum við og fengum til dæmis til okkar finnska ferðamálastjórann fyrrverandi til að sýna fram á það.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×