Erlent

Noriega líklega framseldur til Frakklands

Noriega.
Noriega.

Manuel Noriega, fyrrverandi einræðisherra í Panama, verður að öllum líkindum framseldur til Frakklands. Noriega hefur lokið við að afplána 17 ára dóm í Bandaríkjunum fyrir fíkniefnasölu og vilja Frakkar fá hann framseldan en þar í landi var hann dæmdur fyrir peningaþvætti.

Lögfræðingar Noriega höfðu áfrýjað framsalskröfunni til Hæstaréttar Bandaríkjanna en rétturinn neitaði í dag að taka áfrýjunina fyrir og því lítur út fyrir að einræðisherrann eigi eftir að dúsa í frönsku fangelsi næstu árin. Þá á hann einnig yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm í heimalandinu Panama fyrir að leggja á ráðin um morð á pólitískum keppinaut.

Noriega er kominn á áttræðisaldur en á níunda áratugi síðustu aldar stjórnaði hann Panama með stuðningi Bandaríkjanna uns upp á vinskapinn slettist og Bandaríkjamenn gerðu innrás í landið og handtóku hann fyrir aðild að fíkniefnainnfluttningi til Bandaríkjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×