Handbolti

Björgvin: Urðum að koma okkur á jörðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Björgvin Páll Gústavsson hefur varið vel á mótinu.
Björgvin Páll Gústavsson hefur varið vel á mótinu. Mynd/AFP

Björgvin Páll Gústavsson segir ekkert þýða að lifa lengur á leiknum góða við Dani um helgina ef Ísland ætlar sér að ná góðum úrslitum gegn Króatíu í dag.

Björgvin Páll átti frábæran dag gegn Danmörku en var ekki lengi að velta sér upp úr því.

„Maður skoðaði þetta eitthvað um kvöldið eftir leikinn og lifði á þessu þá. En svo tekur við nýr dagur og nýir andstæðingar," sagði Björgvin Páll við Vísi eftir æfingu íslenska landsliðsins í Vínarborg í gær.

Leikurinn við Króatíu hefst klukkan 15.00 í dag og er fyrsti leikur Íslands í milliriðlakeppninni í Vín.

„Þetta er hörkuverkefni enda Króatar með eitt besta lið í heimi. Það þýðir ekkert að vera enn í sæluvímu þegar þessi leikur byrjar og því þurftum við að koma okkur aftur á jörðina sem allra fyrst."

Hann segir ýmislegt sem þurfi að varast í leik Króata.

„Við þurfum fyrst og fremst að spila okkar leik og passa okkur á því að detta ekki niður á þeirra hraða. Við þurfum að ná hraðaupphlaupum okkar upp og nota þau vopn sem við eigum. Ef það tekst eigum við að geta unnið þá."

„Það eru gríðarlega margir góðir handboltamenn í Króatíu. Þeir eiga leikstjórnanda sem skipuleggur leik liðsins vel og öflugar skyttur sem eru duglegar að skjóta á markið. En ef við höldum við okkar leikáætlun þá eigum við að geta ráðið við hvaða lið sem er."

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×