Erlent

Obama spáð sögulegum ósigri

Óli Tynes skrifar
Brosir Obama á morgun?
Brosir Obama á morgun?

Það er algengt í Bandaríkjunum að ríkjandi flokkur tapi þingsætum og ríkisstjórastólum í þingkosningunum sem haldnar eru á miðju fyrra kjörtímabili forsetans. Viðsnúningurinn sem búist er við í dag gæti hinsvegar orðið sá mesti í áratugi, ef marka má skoðanakannanir. Það er barist um 100 af 435 þingsætum í fulltrúadeildinni og 37 af 100 sætum í öldungadeildinni.

Í kosningunum eru kjósendur að fella dóm um bæði frammistöðu demokrata með meirihluta sinn á þingi og fyrstu tvö ár Baracks Obama í embætti. Með 9,6 prósenta atvinnuleysi og afar hægan efnahagsbata á forsetinn ekki von á góðu. Honum hefur verið legið á hálsi fyrir að þrusa í gegnum þingið ýmsum kostnaðarsömum frumvörpum og ber þar hæst sjúkratryggingarnar sem gerðu hægri menn arfavitlausa.

Hægri sveifla

Mjög verður forvitnilegt að sjá hvernig Teboðs-framboðinu svokallaða reiðir af. Að því standa allra hægrisinnuðustu republikanar og framgangur þess hefur verið með ólíkindum. Svo mikil eru áhrif þess orðin að jafnvel þótt kosningarnar uppfylli ekki vonir þess um þingsæti mun það hafa áhrif til þess að sveigja republikana enn meira til hægri.

Ef republikanar ná meirihluta á þingi verður Obama því í erfiðri stöðu til að koma málum sínum í gegn á þingi. Þetta yrði svosem ekki í fyrsta skipti sem forseti hefði ekki þingmeirihluta. En talið er að þessi meirihluti yrði sérstaklega óþjáll.

Mikil harka

Harkan í þessari kosningabaráttu bendir óneitanlega til þess. Þetta eru allra dýrustu kosningar sem nokkrusinni hafa verið haldnar í Bandaríkjunum, að forsetakosningum frátöldum. Reikningurinn hljóðar upp á 3,5 milljarða dollara. Það eru næstum 400 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×