Viðskipti innlent

Lækkun verðbólgu langt umfram spár

Lækkun ársverðbólgunnar niður í 6,6% eru ánægjuleg tíðindi en þessi lækkun var langt umfram spár sérfræðinga og greiningardeilda. Þeir höfðu raunar reiknað með því að verðbólgan myndi hækka úr 7,5% í síðasta mánuði og upp í um 8% núna.

Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Íslandsbanka segir að það sem skýri helst mismun á spám og veruleikanum sé húsnæðisliðurinn. „Þessi liður lækkar mun meira en við áttum von á og raunar meira en við höfum séð á undanförnum mánuðum," segir Ingólfur.

Önnur ástæða fyrir mismuninum á spá og mælingu Hagstofunnar liggur í áhrifum af breyttum virðisaukaskatti. „Virðisaukaskattsbreytingin skilaði sér ekki eins mikið inn í verðlagið eins og við áttum von á," segir Ingólfur.

Fram kemur í máli Ingólfs að þessi ánægjulegu tíðindi í þróun verðbólgunnar geri það líklegra en ekki að peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka stýrivexti sína á morgun, miðvikudag. „Nefndin lítur mikið til tveggja þátta, það er stöðugleika á genginu og verðbólguþróun," segir Ingólfur. „Báðir þessir þættir benda til stýrivaxtalækkunnar."

Ingólfur á ekki von á að um mikla lækkun verði að ræða við ákvörðun nefndarinnar á morgun þegar tekið er tillit til stöðunnar í heild á Íslandi. Er hann þar að vísa í Icesave málið og fyrirsjáanlegar tafir á næstu endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×