Viðskipti innlent

Spáir því að íbúðaverð hækki um 10% næstu tvö árin

Greining Íslandsbanka spáir því að íbúðaverð muni hækka um 10% að nafnverði næstu tvö árin. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallað er um nýjar tölur Þjóðskrár Íslands um að íbúðaverð í borginni hafi lækkað um 0,1% milli október og nóvember.

Í Morgunkorninu segir að botninum sé náð á íbúðamarkaðinum að mati greiningarinnar. „Við gerum ráð fyrir að viðsnúningurinn á íbúðamarkaði verði enn frekar staðfestur í íbúðaverðsmælingum næstu mánaða. Spáum við því að íbúðaverð muni á næstu tveimur árum hækka um 10% að nafnverði," segir í Morgunkorninu.

„Til grundvallar liggur spá okkar um að kaupmáttur launa haldi áfram að hækka, að það dragi úr atvinnuleysi, vextir lækki enn frekar, aðgengi að lánsfjármagni muni batna, gengi krónunnar muni styrkjast aðeins og að verðbólgan haldist lág. Almennt byggir spáin á því að hagvöxtur taki við sér á næstunni en að sá vöxtur verði hægur.

Þá byggir spáin á því að landsmönnum taki að fjölga aftur með batnandi efnahag en nú um mitt ár hafði landsmönnum fækkað um 0,4% frá sama tíma fyrra árs og er það mesta fækkun á milli ára síðan 1888.

Nokkuð er þó í að nýbyggingar íbúðarhúsnæðis taki við sér enda er byggingarkostnaður enn hár og talsvert óselt af því nýja húsnæði sem hafist var handa við að byggja fyrir fjármálakreppuna. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði mun því áfram verða lítil."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×