Erlent

Skógareldar orðið 25 að bana í Rússlandi

Vladimir Pútín forsætisráðherra Rússlands ferðaðist um svæðin sem hafa orðið hvað verst úti í skógareldunum. 
nordicphotos/afp
Vladimir Pútín forsætisráðherra Rússlands ferðaðist um svæðin sem hafa orðið hvað verst úti í skógareldunum. nordicphotos/afp
Minnst 25 hafa látist í skógareldum í Rússlandi síðustu tvo daga.

Eldar hafa breiðst út yfir um 90 þúsund hektara svæði undanfarna daga, í kjölfar mikilla hita í landinu. Hitamet var slegið í síðustu viku og júlímánuður var heitasti mánuður í Moskvu frá því að hitamælingar hófust fyrir 130 árum. Miklir þurrkar eru á ökrum og í skógum og hefur uppskera eyðilagst að mestu.

Vladimir Pútín forsætisráðherra heimsótti svæðið í gær og fór meðal annars til eins þriggja smábæja sem brunnu til kaldra kola tæpum 500 kílómetrum austan við Moskvu. Pútín lofaði íbúum þar því að öll húsin í bænum, 341, yrðu endurbyggð fyrir veturinn. Þá lofaði hann hverjum bæjarbúa 200 þúsund rúblum, um 780 þúsund krónum, í skaðabætur.

Voronezh, borg sunnan við Moskvu er nánast umkringd af skógareldunum, og þurfti meðal annars að flytja sjúklinga af sjúkrahúsum í flýti í gær. Pútín hvatti í gær Medvedev forseta til þess að senda herlið til að aðstoða við að slökkva eldana. Þá sagði hann að allir opinberir starfsmenn sem eigi aðild að björgunarmálum verði rannsakaðir sérstaklega til að komast að því hvort einhverjir hafi brugðist í starfi. - þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×