Innlent

Er óheimilt að vera í Sjálfstæðisflokknum

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur úrskurðað að tveimur félögum, Ólafi Áka Ragnarssyni og Guðmundi Skúla Halldórssyni, sé óheimilt að vera í flokknum. Ástæðan er þátttaka þeirra í öðrum stjórnmálaflokkum.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur úrskurðað að tveimur félögum, Ólafi Áka Ragnarssyni og Guðmundi Skúla Halldórssyni, sé óheimilt að vera í flokknum. Ástæðan er þátttaka þeirra í öðrum stjórnmálaflokkum.

Tveimur félögum í Sjálfstæðisflokknum, þeim Guðmundi Skúla Halldórssyni og Ólafi Áka Ragnarssyni, er óheimilt að vera félagar í flokknum. Báðir hafa þeir gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn; Guðmundur var formaður Félags ungra sjálfstæðismanna í Borgarnesi og Ólafur bæjarstjóri í Ölfusi.

Ólafur Áki segir, í samtali við Vísi, að honum hafi verið vísað úr flokknum á fimmtudag. Hann hafi verið að búa sig undir landsfund, sem hófst í gær, þegar Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri flokksins, tilkynnti honum að miðstjórn hefði ákveðið að vísa honum úr flokknum. Ólafur Áki bauð fram undir formerkjum A-lista fyrir síðust kosningar, en Sjálfstæðisflokkurinn bauð einnig fram.

Jónmundur vísar þessu á bug og segir engum hafa verið vísað úr flokknum. Í samræmi við skipulagsreglur Sjálfstæðisflokksins geti þeir einstaklingar sem gegna trúnaðarstörfum fyrir aðra flokka einfaldlega ekki verið í flokknum. Þess vegna hafi þeir sjálfir gengið úr flokknum þegar þeir tóku þau trúnaðarstörf að sér.

Ákvæðið sem Jónmundur vísar í er í 34. grein skipulagsreglna flokksins og hljóðar svo: „Gegni maður trúnaðarstörfum fyrir annan stjórnmálaflokk getur hann ekki verið félagi í sjálfstæðisfélagi.“

Gunnar Thoroddsen stofnaði ríkisstjórn árið 1980, án þátttöku Sjálfstæðisflokksins sem var í stjórnarandstöðu. Honum var þó ekki vísað úr flokknum. Spurður hví annað gildi nú segir Jónmundur að kannski hafi umrætt ákvæði ekki verið komið í gildi á þeim árum. Hefði svo verið hefði Gunnar ekki getað verið í flokknum.

Guðmundur Skúli segir að sér hafi verið vikið úr flokknum vegna þátttöku sinnar í Svarta listanum fyrir síðustu kosningar. Hann segir fólk í efstu sætum Svarta listans hafa mátt þola hótanir um atvinnumissi ef það tæki þátt í framboðinu. Hann kannast ekki við brottrekstur af þessu tagi í Sjálfstæðisflokknum áður. „Mér fannst réttast að hafa prófkjör fyrir kosningarnar eftir að gullegg sveitarfélagsins, Sparisjóður Mýrasýslu, fór á hausinn á vakt sjálfstæðismanna,“ segir hann.kolbeinn@frettabladid.is

/ sunna@frettabladid.is

ólafur áki ragnarsson
jónmundur guðmarsson


Guðmundur Skúli Halldórsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×