Erlent

Ný lög leyfa burtrekstur Rómafólks

Rómafólk í tjaldbúðum í Frakklandi.  NordicPhotos/AFP
Rómafólk í tjaldbúðum í Frakklandi. NordicPhotos/AFP
Ný og harðari innflytjendalöggjöf var samþykkt af neðri deild franska þingsins á þriðjudag, en í því felast mörg umdeild ákvæði sem gera stjórnvöldum meðal annars kleift að reka Rómafólk, eða sígauna, úr landi.

Meðal annars kveða lögin á um að hægt verði að vísa íbúum annarra ríkja Evrópusambandsins (ESB) úr landinu ef þeir gerast uppvísir að lögbrotum, en það hefur fallið í grýttan jarðveg í Brussel. Framkvæmdastjórn ESB gaf Frakklandi frest til 15. október til að hlýta tilskipun frá árinu 2004 þar sem segir að allir borgarar sambandsins megi ferðast óáreittir milli landa þess.

Þá hefur frumvarpið þótt halla verulega á Rómafólk þar sem brottrekstur liggur við þjófnaði, betli og landtöku.

Talið er að forsetinn Nicolas Sarkozy mæli fyrir þessari löggjöf til að höfða til hægrimanna, en vinsældir hans hafa dalað verulega undanfarið. Eric Besson innflytjendaráðherra hefur blásið á gagnrýnisraddir og segist viss um að löggjöfin marki fyrsta skrefið í smíð nýrrar innflytjendastefnu í Evrópu.- þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×