Viðskipti innlent

Telja stjórnvöld hafa stýrt milljarðakaupum bak við tjöldin

Sigríður Mogensen skrifar

ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, telur allt benda til að íslensk stjórnvöld hafi haft afskipti af kaupum nýju bankanna á eignum peningamarkaðssjóða í hruninu, fyrir 80 milljarða króna. Þetta er rökstutt í ákvörðun stofnunarinnar um að rannsaka kaupin.

ESA ákvað í byrjun september að hefja formlega rannsókn á því hvort kaup nýju bankanna þriggja á eignum peningamarkaðssjóða gömlu bankanna við slit þeirra í október 2008 hafi falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi EES samningsins.

Keypt var úr sjóðunum fyrir 80 milljarða króna, dagana 17. til 30. október. Stjórnvöld hafa haldið því fram að þau hafi ekki skipt sér af þessu. Nýju bankarnir hafi ákveðið þetta sjálfir, á viðskiptalegum forsendum. Fjármálaráðuneytið hefur haldið því fram, opinberlega og gagnvart ESA, að stjórnvöld hafi ekki tekið þátt í ákvörðun um eða fjármögnun kaupanna.

Í nýbirtum rökstuðningi ESA fyrir því að hefja rannsókn á málinu koma fram að sterkar vísbendingar séu um hið gagnstæða.

ESA nefnir að ákvarðanir allra bankanna þriggja hafi verið sambærilegar og teknar á sama tíma. Það hafi þeir varla gert án þess að ráðfæra sig við FME og stjórnvöld. Bráðabirgðastjórnir Fjármálaeftirlitsins stýrðu bönkunum á þessum tíma. Í þeim stjórnum hafi setið embættismenn úr ráðuneytum og aðrir á vegum ríkisins.

Einnig veki umfang viðskiptanna spurningar. Það komi á óvart að nýju bankarnir hafi ákveðið að standa í svona stórum og áhættusömum viðskiptum nokkrum dögum eftir að þeir urðu til.

Þá myndi ekkert fyrirtæki sem stjórnist af hagnaðarsjónarmiðum hafa keypt eignirnar fyrir svo mikið fé. Þetta bendi til að stjórnvöld hafi beitt áhrifum.

Gera má ráð fyrir að niðurstaða rannsóknar ESA liggi fyrir á næsta ári.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×