Erlent

Saudar reka uppreisnarmenn af höndum sér

Óli Tynes skrifar
Saudi-Arabiskur brynvagn á landamærum Yemens.
Saudi-Arabiskur brynvagn á landamærum Yemens.

Saudi-Arabar segja að þeir hafi hrakið uppreisnarmenn í Yemen frá landamærum ríkjanna eftir þriggja mánaða harða bardaga. 133 saudi-arabiskir hermenn féllu í átökunum.

Uppreisnarmennirnir hafa verið að berjast við sína eigin ríkisstjórn síðan 2004 vegna þess sem þeir kalla vanrækslu og misrétti.

Þeir saka Saudi-Araba um að aðstoða stjórnarherinn en Saudar saka Írana um að styðja uppreisnarmennina.

Þegar uppreisnarmennirnir svo réðust yfir landamærin og felldu saudi-arabiska landamæraverði í nóvember síðastliðnum gerðu Saudar stórfellda gagnárás.

Þeir beittu bæði stórskotaliði og orrustuþotum og hafa fellt mikinn fjölda uppreisnarmanna auk þess sem þeir tóku 1500 til fanga.

Saudar eru ekki þeir einu sem berjast gegn uppreisnarmönnum í Yemen. al-Kaida samtökin hafa gert landið að einu mikilvægasta víghreiðri sínu og Bandaríkin hafa sent sérsveitarmenn til þess að hjálpa stjórnarhernum við að koma þeim fyrir kattarnef.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×