Lífið

Stjarna frá Aserbaídsjan í kynningarferð á Íslandi

Ruslana og Safura
Aserbaídsjan ætlar sér stóra hluti í keppninni í ár og fulltrúi þeirra, Safura Alizade, hyggst heimsækja Ísland í tengslum við keppnina. Ruslana kom hingað árið 2004 og sigraði í keppninni í kjölfarið.
Ruslana og Safura Aserbaídsjan ætlar sér stóra hluti í keppninni í ár og fulltrúi þeirra, Safura Alizade, hyggst heimsækja Ísland í tengslum við keppnina. Ruslana kom hingað árið 2004 og sigraði í keppninni í kjölfarið.
Íslendingar eiga von á góðri heimsókn innan tíðar þegar poppstjarna frá Aserbaídsjan hitar upp fyrir Eurovision hér á landi.

Safura Alizade, fulltrúi Aserbaídsjan í Eurovision, mun heimsækja Ísland í sérstakri kynningarherferð sem Eurovision-nefnd landsins hyggst blása til í tengslum við þátttökuna. Þetta kom fram á blaðamannafundi Safuru sem haldinn var í tilefni af því að tökur á myndbandi við lagið Drip Drop voru að hefjast. Fram kom að myndbandið yrði tilbúið til sýningar 25. apríl og að í kjölfarið yrði farið í mikla kynningarherferð þar sem Safura myndi heimsækja fjölmörg lönd í Evrópu, meðal annars Ísland, og syngja lagið sitt.

Hera Björk Þórhallsdóttir, fulltrúi Íslands, hafði ekkert heyrt af þessari heimsókn Safuru til Íslands þegar Fréttablaðið bar þessar fréttir undir hana. „Nei, en ég á kannski eftir að heyra af því. Þetta væri bara frábært," segir Hera.

Söngkonan frá Aserbaídsjan yrði ekki fyrsta erlenda Eurovision-stjarnan sem kæmi hingað til lands í þeim erindagjörðum að kynna bæði land sitt og þjóð. Og að sjálfsögðu lagið sitt. Ruslana kom hingað árið 2004 með lagið sitt Wild Dances og hélt vel sótta tónleika á Pravda á föstudaginn langa. Heimsóknin vakti mikla athygli því Ruslana flaug til landsins í einkaþotu og fékk meðal annars að hitta Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra. Íslenskir Eurovision-aðdáendur tóku Ruslönu vel og kunnu vel að meta lagið hennar sem sló eftirminnilega í gegn í Tyrklandi og sigraði að lokum.

Íslandsheimsóknin virtist hafa skilað sér því Ruslana fékk tólf stig frá Íslandi og lagði þjóðin því sitt af mörkum til að tryggja henni sigur. Spurning hvort heimsókn Safuru skili henni svipuðum árangri. freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.