Erlent

Bandaríkjamenn minnast í Hírósíma

Gestir við minningarathöfnina munu hittast við þessa hvelfingu sem er hluti friðargarðsins í Hírósíma.
Gestir við minningarathöfnina munu hittast við þessa hvelfingu sem er hluti friðargarðsins í Hírósíma.
Sendinefnd frá Bandaríkjunum verður við minningarathöfn um kjarnorkuárás Bandaríkjamanna á Hírósíma í Japan sem haldin verður í borginni á morgun. Þá verða 65 ár liðin frá kjarnorkusprengingunni sem kostaði 140.000 manns lífið. Þetta er í fyrsta skipti sem Bandaríkjamenn senda fulltrúa á minningarathöfnina.

Japönsk stjórnvöld og eftirlifendur árásarinnar hafa fagnað þessari ákvörðun en margir eftirlifendanna segjast þó enn bíða eftir því að Bandaríkjamenn biðjist afsökunar á verknaðinum.

John Roos, sendiherra Bandaríkjanna í Japan, mun leiða sendinefndina en við athöfnina verða fulltrúar frá 75 löndum auk Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

Kjarnorkuárásin á Hírósíma var gerð hinn 6. ágúst 1945 og kostaði eins og áður sagði 140.000 manns lífið. Þremur dögum seinna var annarri kjarnorkusprengju varpað á borgina Nagasakí og létust 80.000 manns í kjölfar þeirrar árásar. Hinn 15. ágúst 1945 lauk svo seinni heimsstyrjöldinni þegar Japanar gáfust formlega upp.

Kjarnorkuveldin Frakkland og Bretland munu einnig senda fulltrúa á minningarathöfnina í fyrsta skipti.- mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×