Erlent

Gamall nasisti ákærður fyrir 430.000 morð á gyðingum

Ríkissaksóknarinn í Bonn í Þýskalandi ætlar að ákæra fyrrum nasista fyrir að vera meðábyrgur fyrir morðum á 430.000 gyðingum í seinni heimstryjöldinni.

Nasistinn sem hér um ræðir er orðinn 88 ára gamall og heitir Samuel Kunz. Hann gengdi stöðu fangavarðar í Belzec útrýmingarbúðunum í Póllandi árin 1942 og 1943. Belzec búðirnar þóttu með þeim hryllilegri á valdatíma nasista í Þýskalandi.

Samkvæmt frétt um málið í Ekstra Bladet verður Kunz þar að auki ákærður fyrir að hafa myrt 10 gyðinga í búðunum á einum degi en ástæðan fyrir þeim morðum var að Kunz vildi komast yfir persónulegar eigur þeirra.

Kunz sem býr nálægt Bonn í dag hefur neitað að tjá sig um væntanleg réttarhöld yfir sér við fjölmiðla.

Fram kemur í fréttinni að Samuel Kunz er nú í þriðja sæti yfir eftirlýsta stríðsglæpamenn nasista hjá Simon Wisenthal stofnunni í Ísrael.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×