Erlent

Leiðtogi danskra jafnaðarmanna í vondum málum

Óli Tynes skrifar
Helle Thorning-Schmidt og Stephen Kinnock.
Helle Thorning-Schmidt og Stephen Kinnock.

Helle Thorning-Schmidt leiðtogi danskra jafnaðarmanna er gift breskum manni.

Sá heitir Stephen Kinnock og er sonur Neils Kinnock fyrrverandi formanns breska Verkamannaflokksins.

Stephen Kinnock er einn af stjórnendum World Economic Forum með starfsstöð í Sviss.

Árið 2009 sótti Helle Thorning-Schmidt um það til dómsmálaráðuneytisins að eiginmaðurinn yrði skráður meðeigandi að húsi fjölskyldunnar í Österbro í Kaupmannahöfn.

Hún færði meðal annars fram þau rök að hann væri í Kaupmannahöfn allar helgar ársins frá föstudegi til mánudags.

Heimsóknum fækkaði snarlega

Í síðasta mánuði var svo tekist á um hvort Stephen Kinnock ætti að borga skatta í Danmörku en hann borgar nú skatta í Sviss. Þá kom annað hljóð í strokkinn.

Í greinargerð um hversvegna eiginmaðurinn ætti ekki að borga skatta sagði Thorning-Schmidt að hann væri aðeins í Danmörku 33 helgar á ári. Semsagt bara túristi.

Danska blaðið BT komst yfir pappírana sem sýna mismunandi skýringar formanns jafnaðarmanna á búsetu eiginmannsins.

Og nú er hafin skoðanakönnun á því hvort Helle Thorning-Schmidt eigi að segja af sér sem þingmaður og flokksformaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×