Erlent

Bera ábyrgð á mesta olíuleka sögunnar

Bæði yfirmenn BP og Bandaríkjastjórn hafa orðið fyrir harðri gagnrýni fyrir hægagang í glímunni við olíulekann.nordicphotos/AFP
Bæði yfirmenn BP og Bandaríkjastjórn hafa orðið fyrir harðri gagnrýni fyrir hægagang í glímunni við olíulekann.nordicphotos/AFP
Frá 23. apríl fram í ágústbyrjun láku nærri fimm milljónir tunna af olíu út í Mexíkóflóa. Í gær gáfu bandarísk stjórnvöld út þá tilkynningu að fjórðungur þeirrar olíu væri enn í hafinu, en 75 prósent hafi ýmist verið hreinsuð upp, brennd, gufað upp í andrúmsloftið eða brotnað niður í hafinu.

Heildarmagn lekans er tuttugu sinnum meira en það sem lak út í hafið út af strönd Alaska þegar olíuskipið Exxon Valdez strandaði þar árið 1989. Enn er í hafinu fimmfalt það magn sem lak úr Exxon Valdez á sínum tíma.

Það var ekki fyrr en nú í byrjun vikunnar sem breska olíufyrirtækið BP taldi sig hafa komist fyrir lekann að fullu. Tjónið er gríðarlegt, þótt vissulega hafi tekist að koma í veg fyrir að það yrði enn verra.

Bæði yfirmenn olíufélagsins BP og Bandaríkjastjórn hafa orðið fyrir harðri gagnrýni fyrir hægagang og vandræðagang í glímunni við þennan mesta olíuleka sögunnar.

Framan af var minna gert úr vandanum en efni stóðu til, auk þess sem sigri var oftar en einu sinni fagnað áður en ástæða var til.

Enn er ekki útséð um hvort tekist hefur að stöðva lekann endanlega. Það verður ekki ljóst fyrr en eftir nokkrar vikur, þegar leðju verður dælt niður í olíubrunninn og síðan steypt yfir allt saman. Þá verður einnig lokið við að bora nýjan brunn niður í gömlu borholuna, svo hægt verði að ganga úr skugga um hvernig til hefur tekist.

Engin leið er heldur til að segja hvenær lokið verður við að hreinsa olíuna úr hafinu eða hve miklu tjóni hún á eftir að valda meðan hún er þar enn á sveimi.

„Enn eru bátar þarna úti á hverjum degi með fólk að störfum. Skjaldbökur finnast þaktar olíu og gras finnst á ströndinni með olíu,“ segir Randy Boggs, skipstjóri á ferju. Hann segist eiga erfitt með að trúa yfirlýsingum BP um að lekinn hafi verið stöðvaður.

„Enn eru milljónir punda af tjörukleprum og olíu á hafsbotni.“

Lekinn hófst þegar olíuborpallurinn Deepwater Horizon sökk þann 23. apríl síðastliðinn. Þremur dögum fyrr hafði orðið sprenging í pallinum með þeim afleiðingum að ellefu starfsmenn létu lífið. gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×