Innlent

Fyrirtækin bera allan kostnað

Gagnrýni ferðaþjónustunnar snýr ekki síst að því hversu stuttan fyrirvara fyrirtækin fá til að bregðast við hækkunum. fréttablaðið/anton
Gagnrýni ferðaþjónustunnar snýr ekki síst að því hversu stuttan fyrirvara fyrirtækin fá til að bregðast við hækkunum. fréttablaðið/anton
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) telja að flugfélögin þurfi að bera 400 milljóna króna kostnaðarhækkanir vegna nýlegra gjaldskrárbreytinga frá hendi samgönguráðherra. SAF gagnrýnir ekki síst að hækkanirnar taka gildi með svo stuttum fyrirvara að allur kostnaðurinn fellur á fyrirtækin og ekki er hægt að velta kostnaðinum á farþega.

Með nefndum gjaldskrárbreytingum hækkar flugverndargjald um 53 prósent. Nýtt farþegagjald nemur 150 krónum á hvern farþega og nýtt leiðarflugsgjald verður jafnframt lagt á en það reiknast eftir þyngd loftfars og lengd flugs. Lendingargjöld í innanlandsflugi hækka jafnframt um 25 prósent.

Milljónirnar 400 ganga annars vegar til Keflavíkurflugvallar og hins vegar til Flugstoða. Gjaldskrárbreytingin tekur gildi eftir tvo mánuði. Langt er liðið á aðalsölutímabil sumarsins og SAF gagnrýnir að ekki sé tekið tillit til ábendinga um að gjalda- og skattaumhverfi greinarinnar verði að koma með góðum fyrirvara. Það séu mikil vonbrigði að samgönguráðherra hafi samþykkt þessa breytingu með svo stuttum fyrirvara, eins og segir í tilkynningu. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×