Erlent

Barack Obama og Bill Clinton læstir úti í Hvíta húsinu

Þeir Barack Obama bandaríkjaforseti og Bill Clinton fyrrum forseti lentu í því á föstudag að vera læstir úti frá blaðamannaherbergi Hvíta hússins.

Þeir félagarnir höfðu verið á einkafundi á skrifstofu forsetans þegar Clinton bauð Obama að styðja opinberlega við forsetann í skattamálum. Obama tók Clinton á orðinu og saman héldu þeir til blaðamannaherbergis Hvíta hússins.

Þegar þeir komu að því voru dyrnar læstar og þeir komust ekki inn því allt starfsfólk fjölmiðlaskrifstofu forsetans var að skemmta sér á árlegu jólahlaðborði sínu.

Þeir Obama og Clinton fundu loks aðstoðarkonu og spurðu hana hvort hún gæti opnað herbergið. Hún spurði á móti hvað þeir strákarnir væru að bralla. Þeir sögðust vera að leita að fréttamönnum. Hún gat svo opnað herbergið.

Þá tók við annað vandamál því þegar Clinton byrjaði svo að tala við fréttamennina var alls ekki hægt að stoppa hann. Obama gafst upp eftir hálftíma og fór með þeim orðum að konan sín biði eftir sér. Það stoppaði ekki Clinton sem lét móðan mása í töluverðan tíma eftir að Obama var farinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×