Erlent

Rándýr éta býsnin öll af norskum búfénaði

Óli Tynes skrifar
Úlfar eru meðal rándýra sem herja á norskan búfénað.
Úlfar eru meðal rándýra sem herja á norskan búfénað.

Ríkisendurskoðunin í Noregi hefur gert athugasemdir við himinháar upphæðir sem bændum eru greiddar vegna búpenings sem sagður er hafa orðið villidýrum að bráð. Á næsta ári munu bændur fá um 2,7 milljarða íslenskra króna í bætur. Í fyrra tilkynntu bændur um að þeir hefðu misst 56 þúsund kindur og lömb í rándýrskjaft. Það þykir ríkisendurskoðun ótrúlegur fjöldi.

Það eru margar tegundir rándýra sem leggjast á búfénað. Það eru úlfar, bjarndýr, jarvar, gaupur og kóngsernir. Formaður norsku bændasamtakanna sér ekkert athugavert við kröfur ríkisendurskoðunar um betra eftirlit. Hann segir hinsvegar að mikilvægt sé að bændur fái bætur sem fyrst og því sé rétt að sannreyna tölur eftirá.

Formaðurinn segir að málið sé tiltölulega einfalt. Það séu talin þau dýr sem sleppt sé út til beitar og svo séu þau talin sem skili sér. Hann fær ekki séð hvernig hægt sé að svindla á því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×