Viðskipti innlent

Efnahagsbata á Íslandi seinkar um einn ársfjórðung

Efnahagsbatanum seinkar um einn ársfjórðung frá síðustu spá Seðlabankans. Árstíðarleiðréttur ársfjórðungslegur hagvöxtur verður jákvæður á öðrum fjórðungi þessa árs. Gert er ráð fyrir meiri samdrætti landsframleiðslu í ár en í síðustu Peningamálum, eða 3,4% í stað 2,4%.

Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans sem birt hafa verið á vefsíðu bankans þar sem spáð er fyrir um nánustu framtíð í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þar segir að meiri samdráttur skýrist einkum af neikvæðara framlagi utanríkisviðskipta þar sem spá um u.þ.b. 3% samdrátt innlendrar eftirspurnar er nær óbreytt frá síðustu spá.

Meiri vöxtur innlendrar eftirspurnar á næsta ári gerir það hins vegar að verkum að hagvöxtur þá verður um ½ prósentu meiri en spáð var í nóvember.

Grunnspáin gerir ráð fyrir að fljótlega dragi úr óvissu um framgang efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mjög erfitt er að spá fyrir um efnahagshorfur standist sú forsenda ekki.

Áhrifin velta m.a. á því hversu löng töfin yrði. Sem dæmi má nefna að tefjist stórframkvæmdir fram á seinni hluta næsta árs og verði önnur fjárfesting á þessu ári um 10% minni en gert er ráð fyrir, gæti fjármunamyndun dregist saman um fjórðung á þessu ári og landsframleiðsla um 5%. Atvinnuleysi yrði jafnframt hátt í 2 prósentum meira í lok ársins en gert er ráð fyrir í grunnspánni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×