Viðskipti innlent

Kæra stjórnendur Giftar til ríkissaksóknara

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Sveitarfélögin Djúpivogur og Vopnafjörður ætla að kæra stjórnendur fjárfestingarfélagsins Giftar til ríkissaksóknara fyrir umboðssvik.

Í nýlegri skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands um starfsemi Samvinnutrygginga kemur fram að slíta hefði átt starfsemi Samvinnutrygginga árið 1994 og að stjórnarmönnum hafi borið skylda að sjá til þess að félaginu yrði slitið.

Fjárfestingarfélagið Gift var stofnað utan um eignir Samvinnutrygginga árið 2007. Fimmtíu þúsund manns áttu eignarrétt í félaginu í ljósi þess að þeir greiddu tryggingar í áravís. Eignir félagsins brunnu inni í bankahruninu og tap félagsins fyrir árið 2008 var 58 milljarðar króna. Ljóst er að stjórnendur félagsins stýrðu því án umboðs því þeir sem áttu Samvinnutryggingar, þ.e fyrrum tryggingartakar eins og t.d sveitarfélög, veittu þeim ekki heimild til að stýra félaginu eins og raun varð á. Með öðrum orðum verið var að sýsla með annarra manna fé. Og í nýlegri skýrslu Lagastofnunar um Samvinnutryggingar segir að stjórnarmönnum í félaginu hafi borið skylda til að slíta félaginu strax árið 1994.

Gift hafði alltaf rík tengsl við Framsóknarflokkinn, enda stofnað á grundvelli eigna gamla Sambandsins. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga var stjórnarformaður Giftar. Aðrir í stjórn voru t.d Helgi S. Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans. Þá voru áhrif og ítök Finns Ingólfssonar innan Giftar alltaf mikil. Til að mynda keypti Finnur árið 2006 fjórðung hlutar Giftar í Icelandair árið 2006.

Samkvæmt skýrslu Lagastofnunar er skaðabótaábyrgð stjórnarmanna Giftar líklega fyrnd. Nú hafa sveitarfélögin Vopnafjörður og Djúpivogur sem áttu bæði hlut í félaginu í gegnum Samvinnutryggingar tekið ákvörðun um að kæra stjórnendur og stjórnarmenn í Giftar til ríkissaksóknara fyrir umboðssvik. Hafa þau notið aðstoðar frá lögfræðisviði Sambands íslenskra sveitarfélaga til að hlutast til um kæruna. Umboðssvik geta varðað allt að sex ára fangelsi ef sakir eru miklar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×