Erlent

Hart deilt um bænahús í New York í morgun

Mótmælin voru bæði lífleg og skrautleg.
Mótmælin voru bæði lífleg og skrautleg.

Það var handagangur í öskjunni í New York í morgun þegar stuðningsmenn og andstæðingar umdeildrar mosku, sem fyrirhugað er að reisa nærri rústum World Trade Center, mættust í morgun.

Um 500 andstæðingar moskunnar gengu í flasið á um 150 stuðningsmönnum á horni Vestur-Brodway á Manhattan í New York.

Ekki kom til illdeilna en hóparnir stóðu andspænis hvorum öðrum og hrópuðu slagorð.

Moskumálið er gríðarlega umdeilt en til stendur að reisa mosku nærri rústum World Trade Center sem hrundu í hryðjuverkaárásinni árið 2001. Málið þykir ekki síður merkilegt þar sem það sýnir þverrandi umburðarlyndi Bandaríkjamanna gagnvart Íslam.

Andstæðingar moskunnar eru heldur ekki í vafa um það í hvað bænahúsið verði nýtt. Þeir vilja meina að hryðjuverkamenn framtíðarinnar muni sækja hana. Meðal slagorða sem mátti finna í mótmælunum hljóðaði eitt svona í íslenskri þýðingu: „Ekkert félagsheimili fyrir hryðjuverkamenn!"

Meðal þeirra stjórnmálamanna sem hafa blandað sér í umræðuna er forseti Bandaríkjanna, Barack Obama. Hann er fylgjandi því að moskan rísi á Manhattan og vísar til þess að trúfrelsi ríki í Bandaríkjunum og því eigi múslimar að fá að reisa sína mosku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×