Erlent

Neituðu að vinna með fíkniefnahring

Líkkistur búnar undir flutning. Líkin hafa verið flutt til heimalanda hinna myrtu, sem komu frá nokkrum löndum Mið- og Suður-Ameríku. Fréttablaðið/AP
Líkkistur búnar undir flutning. Líkin hafa verið flutt til heimalanda hinna myrtu, sem komu frá nokkrum löndum Mið- og Suður-Ameríku. Fréttablaðið/AP

„Þeir báðu okkur ekki um neitt, sögðu bara: Viljið þið vinna með okkur? Og enginn vildi vinna með þeim,“ sagði Luis Freddy Lala Pomavilla, átján ára piltur sem lifði af fjöldamorðin í Mexíkó fyrir tæpum tveimur vikum.

Þessi neitun varð til þess að fíkniefnasmyglararnir tóku upp byssur sínar og skutu á hópinn, yfir sjötíu manns, með þeim afleiðingum að nánast allir létust samstundis. Þeir höfðu rænt fólkinu, sem allt var komið til Mexíkó frá ríkjum Suður- og Mið-Ameríku í þeirri von að komast yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Lala lá særður í hópnum smástund eftir að morðingjarnir voru farnir, stóð síðan upp og hélt gangandi af stað. Hann gekk alla nóttina, þar til hann loks rakst á hermenn sem komu honum til hjálpar. Áður hafði hann tvisvar rekist á fólk, sem vildi ekkert með hann hafa.

Lala lýsti reynslu sinni í viðtali á sjónvarpsstöðinni GamaTV, sem líklega var tekið síðastliðinn sunnudag í flugvél á leið heim til Ekvadors, en þaðan er Lala. Hann særðist á hálsi, var með hálskraga og umbúðir á andliti. Hann átti greinilega erfitt með að tala.

Hann sagðist vita um einn annan mann sem komst lífs af vegna þess að honum tókst að fela sig í trjágróðri.

Hópurinn kom til Mexíkó frá Gvatemala, en fólkið var upphaflega ýmist frá Ekvador, San Salvador, Hondúras, Gvatemala eða Brasiíu. Lala notaði viðtalið til þess að vara fólk við því að leggja upp í ferð til Mexíkó í því skyni að komast upp á von og óvon til Bandaríkjanna.

„Það er mikið af vondu fólki þarna sem hleypir manni ekki í gegn,“ sagði hann.

Hann segir fólkið hafa verið í haldi mannræningjanna í eina nótt, bundið saman fjögur og fjögur. Daginn eftir voru þau drepin.

„Þeir fleygðu okkur niður á grúfu og síðan heyrði ég skothljóðin,“ sagði Lala. „Ég heyrði þá skjóta vini mína og síðan varð ég fyrir skoti.“

Þeir sögðu ekkert til hvaða verka þeir ætluðu að fá fólkið, en stjórnvöld í Mexíkó telja að ætlunin hafi verið að fá fólkið til að smygla fíkniefnum til Bandaríkjanna.

Alls fundust 72 lík á búgarði í Tamaulipas-héraði, skammt frá landamærum Bandaríkjanna, þriðjudaginn 24. ágúst eftir að Lala hafði tekist að láta vita af því sem gerðist. Morðin hafa líklega átt sér stað sunnudagskvöldið þar á undan. Þegar hermenn komu á staðinn kom til skotbardaga og féllu þar þrír úr röðum mannræningjanna og einn hermaður.

Ofbeldi og átök tengd fíkniefnaglæpum í Mexíkó hafa kostað 28 þúsund manns lífið síðan Felipe Calderon, forseti landsins, ákvað árið 2006 að herða mjög baráttu stjórnvalda gegn fíkniefnahringjum.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×