Viðskipti innlent

Eignalaus skúffufyrirtæki skulda Byggðastofnun milljarð

Tvö af helstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. á Ísafirði og Vísir hf. í Grindavík, skulda Byggðastofnun um einn miljarð íslenskra króna í gegnum dótturfélög sín sem eru eignalaus skúffufyrirtæki.

Fjallað er um málið á vefsíðunni Skutull.is. Þar segir að fram hefur komið í fréttum að fjögur sjávarútvegsfyrirtæki skulda Byggðastofnun 1,2 milljarða króna vegna lána sem veitt hafa verið með veði í rækjukvóta. Tvö af þessum fyrirtækjum eru einkahlutafélögin Forest Gump og F-420, segir í frétt á Vísi.is.

Samkvæmt upplýsingum Skutuls.is skulda þessi fyrirtæki Byggðastofnun hvort um sig nálægt 500 milljónum króna. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að bæði fyrirtækin eru skúffufyrirtæki eða eignarhaldsfélög án sýnilegra eigna.

Rækjukvótinn sem sagt er að þau hafi fengið lán út á er ekki hjá þessum félögum, heldur móðurfélögum þeirra, sem eru tvö af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.

Þannig mun Vísir hf. í Grindavík vera eigandi Forest Gump ehf. og Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. eigandi F-420 ehf. í gegnum annað eignarhaldsfélag sem nefnist Skollaborg ehf. Skollaborg ehf. er að öllu leyti í eigu HG hf. Vísir hf. og HG hf. voru bæði skráð fyrir úthafsrækjukvóta á þessu fiskveiðiári, en dótturfyrirtækin ekki.

Það er svo aftur staðreynd að hvorki Vísir hf. né HG hf. hafa stundað rækjuveiðar á síðustu árum, heldur notað kvótann til millifærslna eða leigt hann frá sér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×