Viðskipti innlent

Almenn bjartsýni með ferðasumarið

ferðamenn fleiri erlendir ferðamenn hafa bókað ferð til Íslands í sumar en á sama tíma í fyrra, segir forstjóri Icelandair.Fréttablaðið/Valli
ferðamenn fleiri erlendir ferðamenn hafa bókað ferð til Íslands í sumar en á sama tíma í fyrra, segir forstjóri Icelandair.Fréttablaðið/Valli

Almenn bjartsýni ríkir meðal fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu hér á landi með komandi ferðasumar, segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Ferðamenn bóka þó með sífellt styttri fyrirvara svo erfitt er að spá fyrir um sumarið.

„Það bendir allt til þess að þetta geti orðið ágætt sumar, en við höfum meiri áhyggjur af öðrum tímum ársins,“ segir Erna. Heldur hefur dregið úr komum ferðamanna utan háannatímans yfir sumarið, þótt ferðamönnum hafi fjölgað yfir sumarmánuðina.

Bókanir erlendra ferðamanna á flugferðum til Íslands eru um fimmtán prósentum fleiri nú en á sama tíma á síðasta ári, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. Það sé aukning umfram þá tíu prósenta framboðsaukningu sem sé hjá félaginu.

„Við reiknum með að toppa síðasta sumar, sem þó sló öll met,“ segir Birkir. Hann segir þessa aukningu trúlega eiga sér nokkrar ástæður. Ferðamenn virðist bóka fyrr en venjulega, en ótvírætt sé áhugi á Íslandi að aukast. Þá hafi Icelandair aukið heldur við markaðssetningu og sætaframboð undanfarið.

Markaðssetning ferðaþjónustunnar undanfarin ár hefur að mestu beinst að því að auka fjölda ferðamanna utan við háannatímann, og því er það vissulega áhyggjuefni að nú dragi úr fjöldanum.

Eflaust spilar margt inn í, en skortur á rannsóknum gerir erfitt fyrir að meta orsakirnar nákvæmlega, segir Erna. Augljóslega hafi heimskreppan þar áhrif, lágt gengi krónunnar nái ekki að vega upp almennan samdrátt á fjölda ferðamanna í heiminum. Ein afleiðing kreppunnar sé til dæmis samdráttur í ráðstefnuhaldi í Reykjavík.

Birkir segist sjá skýr merki um samdrátt í ráðstefnuhaldi. Færri ráðstefnuhópar og hópar á leið í hvataferðir bóki nú flug til landsins. Aukningin sé öll í ferðum einstaklinga og fjölskylduferðum.

Ein áhrif hrunsins hér á landi eru veikt gengi krónunnar. Það hefur þó þau áhrif að ferðamenn eyða að meðaltali fleiri krónum en áður hér á landi.

Erna segir að til að snúa þessari óheillaþróun við þurfi að auka enn við markaðssetningu íslenskrar ferðamennsku.

Vonandi muni tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Reykjavíkurhöfn skila auknum fjölda ferðamanna, en það verði þó ekki tekið í notkun fyrr en á næsta ári. Þá muni heilsutengd ferðamennska vonandi auka fjölda ferðamanna þegar hún kemst á flug, en það geti verið nokkur tími þangað til.

Spurð um áhrif umtals um hrunið á Íslandi og Icesave erlendis segir Erna umtalið sennilega jákvætt fyrir ferðamennskuna. Sífellt fleiri heyri af Íslandi, og fólk virðist almennt gera greinarmun á fréttum af hruni banka annars vegar og fallegri náttúru hins vegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×