Erlent

Fjöldamorðingi gerði samning við djöfulinn

Víða í Argentínu tíðkast að heita á San la muerte.
Víða í Argentínu tíðkast að heita á San la muerte.

Lögregla í höfuðborg Argentínu hefur handtekið mann sem á síðustu vikum hefur myrt sex manneskjur til að þóknast djöfli einum. Maðurinn, Marcelo Antelo, er 22 ára gamall og segja fjölmiðlar þar í landi að hann hafi gert einskonar samning við djöfulinn, eða öllu heldur goð í andatrú sem kallast "Höfðingi dauðans", eða San la Muerte.

Maðurinn hafði heitið á goðið og lofað að myrða eina manneskju á viku í skiptum fyrir vernd og völd. Borin hafa verið kennsl á fimm af sex fórnarlömbum mannsins en það sjötta hafði hann brennt svo illa að ógjörningur er að bera kennsl á það. Lögreglan telur víst að maðurinn hafi drepið fórnarlömbin sex til þess að uppfylla samninginn en rannsókn stendur yfir á því hvort samstarfið hafi staðið lengur yfir og fleiri morð sem ekki hefur tekist að leysa tengist málinu.

Höfðingi dauðans nýtur töluverðrar hylli í Argentínu, sérstaklega í yfirfullum fangelsum landsins, í fátækrahverfum og í dreifbýlishéruðum. Þeir sem tilbiðja andann biðja hann um margvíslega aðstoð til dæmis í slagsmálum, að hann sjái til þess að óvinur þeirra gefi upp öndina eða að þeim gangi vel í viðskiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×