Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið fór í húsleit hjá Íslandspósti

Flokkur manna frá Samkeppniseftirlitinu fór og gerði húsleit hjá Íslandspósti í gærmorgun. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, staðfesti að húsleitin væri liður í rannsókn á hugsanlegri misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Hann segir þessa rannsókn standa yfir og ekki sé á þessu stigi hægt að áætla hvenær henni ljúki.

Þetta kemur fram á vefsíðu RUV. Þar segir að ábendingar og kvartanir hafi borist Samkeppniseftirlitinu frá fyrirtækjum í samkeppni við Íslandspóst. Þær lúta að því að Íslandspóstur hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína til að byggja upp samkeppni um flutninga. Hluti póstflutninga er bundinn einkaleyfi, það eru bréfasendingar, og í krafti þeirra hefur Íslandspóstur, einkaleyfishafinn, sterka stöðu á flutningamarkaðnum.

Ennfremur segir á RUV að fyrir nokkrum árum fékk Íslandspóstur boð um það frá Samkeppnisstofnun, forvera Samkeppniseftirlitsins, að rekstur einkaleyfisbundinna póstflutninga skyldi aðskilinn rekstri samkeppnisflutninga, einmitt til að koma í veg fyrir að Íslandspóstur gæti nýtt einkaleyfisstöðu sína til að veita keppinautum í öðrum flutningum óeðlilega samkeppni.

Nú virðist sem keppinautar Íslandspósts telji að fyrirtækið virði ekki lengur þessi fyrirmæli og nýti einkaleyfisstöðu sína til að byggja upp dýrar flutningamiðstöðvar í samkeppni við þá og hafa þeir kvartað til Samkeppniseftirlitsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×