Lífið

Ekkert grín að feta í fótspor Ragnhildar Steinunnar

Margrét Erla Maack fær það vandasama hlutverk að fylla skarð Ragnhildar Steinunnar þegar hún fer í fæðingarorlof. Fréttablaðið/Valli
Margrét Erla Maack fær það vandasama hlutverk að fylla skarð Ragnhildar Steinunnar þegar hún fer í fæðingarorlof. Fréttablaðið/Valli

„Jú, þetta er rétt. Ég get þó róað bæði aðdáendur Ragnhildar og hlustendur Rásar 2 að þetta er bara tímabundið og ég mun snúa aftur í útvarpið þegar Ragnhildur kemur úr fæðingarorlofinu,“ segir Margrét Erla Maack útvarpskona. Margréti hefur verið falið það snúna verkefni að fylla það skarð sem Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir skilur eftir sig í Kastljósi Sjónvarpsins en eins og alþjóð veit á sjónvarpskonan von á sínu fyrsta barni. Margrét mun birtast á skjánum í ágúst.

Margrét er ekki alveg blaut á bakvið eyrun þegar kemur að sjónvarpi því hún hóf feril sinn í Efstaleitinu sem skrifta hjá Evu Maríu Jónsdóttur og þætti hennar.

„Þannig að ég er eiginlega að fara á gamla staðinn minn,“ segir Margrét sem kveðst reiðubúin til kvitta upp á það að Eva sé hennar fyrirmynd þegar kemur að sjónvarpi. „Hún er allavega lærimeistarinn minn.“

Útvarpskonan viðurkennir jafnframt að hún sé logandi hrædd við að feta í fótspor Ragnhildar sem á sér dyggan áhorfendahóp meðal sjónvarpsáhorfenda. „En, eins og ég sagði áðan, þetta er bara tímabundið, hún kemur aftur og ég fer aftur í útvarpið,“ segir Margrét.

Útvarpskonan verður þó önnum kafin áður en hún skellir sér fyrir framan tökuvélarnar því hún er á leiðinni til Mexíkó í júlí ásamt fjórum ellefu ára gömlum börnum.

„Ég er að fara með þau í alþjóðlegar sumarbúðir á vegum Sameinuðu þjóðanna. Eða það er svona styttri útskýringin á þessu verkefni,“ segir Margrét sem hoppar því beint inn í Kastljósið þegar þeirri ævintýradvöl lýkur. Margrét er fyllilega meðvituð um að sjónvarp og útvarp séu tveir ólíkir heimar og hún segist eiga eftir að sakna þess að geta ekki bara mætt nánast ótilhöfð í vinnuna.

Margrét og samstarfskona hennar, Heiða Ólafsdóttir, hafa nánast verið eins og samlokur síðan útvarpsþátturinn H&M hóf göngu sína og Margrét þvertekur fyrir að sjónvarpsferillinn eigi eftir að setja mark sitt á vináttuna. „Nei, við erum tvær þroskaðar konur og kunnum að samgleðjast hvor annarri.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.