Erlent

Wikileaks safnar milljón dollurum - gagnrýndir fyrir ógagnsæi

Julian Assange.
Julian Assange.

Forsprakki uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks, Julian Assange, sagði í viðtali við Washington Post í gær að síðunni hefði tekist að safna einni milljón dollara frá áramótum til þess að fjármagna starfsemi hennar.

Síðunni var lokað í upphafi árs vegna fjárskorts og voru velunnarar Wikileaks hvattir til þess að styrkja hana. Svo virðist sem þeir hafi svarað kallinu því alls hafa milljón dollarar, eða 121 milljónir króna, safnast saman.

Að sögn Julians þá kostar 600 þúsund dollara á ári að reka heimasíðuna.

Á heimasíðu Washinghton Post er Julian gagnrýndur fyrir að leyna því hverjir styrkja síðuna á sama tíma og tilgangur Wikileaks sé að ljóstra upp um leyndarmál ríkisins.

Meðal annars koma peningarnir í gegnum þýsk, sænsk og bresk greiðslukerfi sem lúta ekki jafn ströngum skilmálum og Paypal sem berst gegn því að kerfið sé notað í peningaþvætti.

Staðið hefur á því að greiða Wikileaks styrki sem hafa farið í gegnum Paypal. Ástæðan er sú að Paypal sér merki um peningaþvætti þrátt fyrir að starfsmenn Wikileaks hafi útskýrt fyrir þeim að svo sé ekki.

Julian segir að leyndin á nöfnum styrkjenda sé viðhöfð vegna þeirra andstöðu sem síðan hefur mætt síðan hún lak 76 þúsund leyniskjölum frá varnamálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Þá telur Julian að Pentagon standi á bak við kærur á hendur honum fyrir kynferðisofbeldi í Svíþjóð. Handtökuskipun á hendur honum var gefin út um helgina. Hún var síðar dregin til baka og því lýst yfir að Julian hefði ekki verið ákærður fyrir nauðgun eins og sagði upprunalega.

Julian hefur boðað að birtingu 15 þúsund leyniskjala til viðbótar en bandarísk yfirvöld eru beinlínis æf vegna uppátækisins. Forsprakkar síðunnar eru meðal annars harðlega gagnrýndir fyrir að stefna hermönnum í lífshættu með uppljóstruninni. Starfsmenn Wikileaks, þar á meðal íslenski fréttamaðurinn Kristinn Hrafnsson, hafa unnið að því að fara í gegnum upplýsingarnar til þess að tryggja að þær muni ekki ógna lífi og limum bandarískra hermanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×