Lífið

Ensími tekur upp nýja plötu

Hljómsveitin Ensími í Sundlauginni í Mosfellsbæ þar sem upptökurnar á plötunni standa yfir. Fréttablaðið/Valli
Hljómsveitin Ensími í Sundlauginni í Mosfellsbæ þar sem upptökurnar á plötunni standa yfir. Fréttablaðið/Valli

Hljómsveitin Ensími er þessa dagana stödd í hljóðverinu Sundlauginni í Mosfellsbæ við upptökur á sinni fyrstu plötu í átta ár. Margir bíða hennar með mikilli eftirvæntingu.

„Það er búið að lofa þessari plötu í eitt ár. Nú er bara að duga eða drepast og standa við stóru orðin," segir Franz Gunnarsson, gítarleikari Ensími. Orðrómur um að sveitin sé að undirbúa plötu hefur verið á sveimi í langan tíma en nú loksins á hann við rök að styðjast.

„Þetta gengur mjög vel. Við kláruðum grunnana í fyrsta holli og erum í vikunni að fara að syngja og bæta við einhverju skrauti," segir Franz. Útgáfudagur hefur ekki verið ákveðinn.

„Við ætlum að klára að taka upp á okkar eigin forsendum. Svo er bara að sjá til hvort það verði í sumar eða haust."

Í fyrra kom Ensími saman og spilaði fyrstu plötu sína, Kafbátamúsík, í heild sinni við góðar undir­tektir. Upp frá því vaknaði áhugi á að drífa í gerð nýrrar plötu og fara á fulla ferð á nýjan leik. Öll platan verður tekin upp á íslensku og sem fyrr verður rafrokkið í fyrirrúmi.

„Við vorum með stóran og mikinn lagapott sem við þurftum að velja úr," segir Franz um plötuna, þar sem ný lög og gömul verða í bland.

freyr@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.