Viðskipti innlent

Hafa mánuð til að setja fram andmæli í New York

Hin stefndu í 260 milljarða króna skaðabótamáli slitastjórnar Glitnis hafa þrjátíu daga til að skila greinargerð með andmælum til dómstóls í New York. Án andmæla fellur dómur slitastjórn sjálfkrafa í vil. Lögmenn Jóns Ásgeirs í Bretlandi hafa tekið við kyrrsetningarbeiðninni á hendur honum.

Formaður slitastjórnar Glitnis staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að búið sé að birta lögmönnum Jóns Ásgeirs stefnu slitastjórnar og kyrrsetningarbeiðnina. Unnið var að því í dag að koma stefnunni til hinna sex sem er stefnt.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, segir það sérstakt að slitastjórn Glitnis hafi ákveðið að höfða skaðabótamálið í New York. Hann bendir á að Glitnir sé undir skiptum samkvæmt íslenskum lögum og því ættu dómstólar hér á landi að geta skorið úr um málið. „Ég skil eiginlega ekki hvernig og á hvaða forsendum það er gert, ef menn minnast þess að það var talið frekar óeðlilegt að Jón Ólafsson höfðaði meiðyrðamál á hendur Hannes Hólmstein í London og gerði honum nánast ómögulegt að verjast að þá skuli íslenskt þrotabú kjósa sér eitt dýrasta varnarþing í heimi sem er New York og gera mönnum gjörsamlega ómögulegt að verjast kröfum sem eru sérstakar."

Sigurði sýnist helsta markmiðið hjá þrotabúi Glitnis vera að taka ákveðinn hóp manna úr umferð. Hann bendir á að skatturinn hafi þegar kyrrsett eignir Jóns Ásgeirs á Íslandi. „Og hann er eignalaus, þannig að ég átta mig ekki á þessu, þetta er „excersise in overkilling".

Hin stefndu hafa nú þrjátíu daga til að skila greinargerð með andmælum til dómstólsins í New York, að öðrum kosti fellur dómur slitastjórn sjálfkrafa í vil.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×