Erlent

Hvalurinn í Vejle-firði var 140 ára gamall

Hvalurinn í Vejle-firði slapp við skutulinn í eina og hálfa öld og endaði ævina saddur lífdaga á danskri strönd.
Hvalurinn í Vejle-firði slapp við skutulinn í eina og hálfa öld og endaði ævina saddur lífdaga á danskri strönd.

Langreyður ein stór og mikil sem synti á land í Vejle firði í Danmörku í sumar hefur nú verið aldursgreind og í ljós kom að dýrið var á bilinu 135 til 140 ára gamalt. Vísindamenn frá danska náttúrufræðisafninu komust að þessu en í nýútkominni hvalabók eftir þá Jón Baldur Hlíðberg og Sigurð Ægisson segir að elsta dýr af þessari tegund sem vitað sé um hafi náð 114 ára aldri.

Langreyður er næststærst allra hvala og aðeins steypireyðurin tekur henni fram í stærð. Karldýrin eru venjulega um 18,5 metrar að lengd og kvendýrin um 19,5 metrar. Þrátt fyrir háan aldur hefur hvalurinn gamli verið undir meðallagi því hann mældist um 15 metrar að lengd.

Abdi Hedayat, danskur hvalasérfræðingur, segir í viðtali við danska ríkisútvarpið að hvalurinn í Vejle firði hafi reynst mun eldri en í fyrstu hafi verið talið. Aldur hans þýðir að hann hefur verið svamlandi um heimshöfin á sama tíma og Charles Darwin gerði sýnar merkustu uppgötvanir og sigldi um suðurhöfin í rannsóknarferðum sínum.

Íslendingar hafa nýlega hafið veiðar á langreyð að nýju eftir nokkurt hlé og hafa ríflega hundrað dýr verið skotin á þessu ári. Ekki er ljóst hvort hafið umhverfis Ísland hafi verið reglulegur viðkomustaður hvalsins gamla í gegnum áratugina en ef svo er hefur hann greinilega vikið sér fimlega undan skutlum íslenskra hvalveiðimanna og kollega þeirra í suðurhöfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×