Erlent

Hakkar í sig framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

Óli Tynes skrifar
Inga-Britt Ahlenius vandar Ban Ki-Moon ekki kveðjurnar.
Inga-Britt Ahlenius vandar Ban Ki-Moon ekki kveðjurnar.

Þriðji æðsti yfirmaður Sameinuðu þjóðanna gagnrýnir Ban Ki-Moon framkvæmdastjóra harkalega í fimmtíu síðna kveðjubréfi til samtakanna.

Hin sænska Inga-Britt Ahlenius hafði það verkefni með höndum að uppræta spillingu og bruðl innan Sameinuðu þjóðanna.

Nokkuð sem Ban Ki-Moon lofaði hátíðlega að yrði gert þegar hann sóttist eftir embætti framkvæmdastjóra.

Ahlenius segir að þvert á móti hafi framkvæmdastjórinn grafið undan starfi hennar.

Hann hafi stofnað séstaka rannsóknarnefnd sem hann stjórni sjálfur og hann hafi komið í veg fyrir að hún gæti ráðið þá starfsmenn sem hún sjálf vildi.

Hún segir í bréfi sínu -Gjörðir þínar eru ekki aðeins sorglegar þær eru gagnrýniverðar frá lagalegu sjónarmiði. Þær eru fordæmalausar og þú ert að eyðileggja sjálfan þig.

Ahlenius sakar Ban Ki-Moon um að vera að sigla Sameinuðu þjóðunum í strand.

Og Ahlenius er ekki ein um þessa skoðun. Ekki er langt síðan norska sendinefndin hjá Sameinuðu þjóðunum valtaði yfir framkvæmdastjórann með svipuðum hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×