Innlent

Laus úr gæsluvarðhaldi

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Karlmaður sem á dögunum var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um aðkomu að umfangsmikilli kannabisframleiðslu og sölu er laus úr haldi. Karl Steinar Valsson hjá fíkniefnalögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði að ekki hefði verið talin ástæða til að halda honum lengur. Maðurinn var yfirheyrður ásamt fleirum í gær og að því loknu var honum sleppt.

Rannsókn lögreglu varðar framleiðslu og sölu á kannabisefnum og voru gerðar sex húsleitir í síðustu viku vegna málsins. Fimm karlmenn voru handteknir við þær aðgerðir en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut aðstoðar lögreglumanna frá embætti Ríkislögreglustjóra auk tollyfirvalda.

Að sögn Karls hafa fleiri verið yfirheyrði í málinu en þessir fimm sem áður hafði verið greint frá en með aðgerðunum telur lögreglan sig hafa stöðvað umfangsmikinn hóp við framleiðslu og sölu á ólöglegum fíkniefnum.

Alls hafa fundist um 1200 plöntur á mismunandi stigi ræktunar, um tvö kíló af tilbúnum efnum sem að hluta voru í söluumbúðum, auk þess sem haldlagðir voru fjármunir að upphæð um 500 þúsund auk ýmiss búnaðar til ræktunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×