Viðskipti innlent

Nýr framkvæmdastjóri Dohop

Kristján Guðni Bjarnason.
Kristján Guðni Bjarnason.
Kristján Guðni Bjarnason, verkfræðingur, tók við starfi framkvæmdastjóra íslensku ferðaleitarvélarinnar Dohop.com þann 1. ágúst síðastliðinn. Frosti Sigurjónsson sem hefur verið framkvæmdastjóri félagsins frá stofnun var á sama tíma skipaður stjórnarformaður.

Dohop var stofnað á Íslandi fyrir sex árum. Hjá fyrirtæki starfa 11 manns, allir í Reykjavík og hefur félagið vaxið hratt undanfarin tvö ár, að því er fram kemur á í tilkynningu. Á vefnum dohop.com má finna flugleitarvél, hótelleit og leit að bílaleigubílum.

Í tilkynningunni kemur fram að Kristján Guðni hefur verið einn af lykilstjórnendum Dohop frá upphafi og undanfarin ár haft yfirumsjón með rekstrarsviði fyrirtækisins. Áður en Kristján hóf störf hjá Dohop var hann yfirmaður tölvumála Veðurstofu Íslands og þá var hann einn af stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Gangverks en vann þar áður hjá OZ. Kristján er með meistaragráðu í vélaverkfræði.

„Kristján hefur verið afar farsæll í störfum sínum fyrir Dohop og vart hægt að finna hæfari mann til að taka við nú þegar ég dreg mig í hlé frá daglegum rekstri félagsins," segir Frosti Sigurjónsson í tilkynningunni af þessu tilefni.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni enda má segja að Dohop sé á ákveðnum tímamótum," segir Kristján. „Eftir margra ára þrotlaust þróunarstarf hafa tekjur okkar vaxið mikið, en ætlunin er að viðhalda þeim vexti og leggja grunninn að stöðugum og öflugum rekstri félagsins."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×