Erlent

Verja kjarnorkuver fyrir skógareldum

Óli Tynes skrifar

Björgunarsveitir í Rússlandi eru að örmagnast eftir að hafa barist vikum saman við skógarelda sem engin leið virðist að hemja.

Um sexhundruð skógareldar geisa nú um miðbik landsins. Þótt talan fimmtíu sé nefnd opinberlega veit í raun enginn hversu margir hafa farist eða hversu mörg þorp eru brunnin tl kaldra kola.

Megináhersla er nú lögð á að verja bæinn Sarov þar sem búa um 90 þúsund manns.

Sarov hefur áratugum saman verið lokaður bær enda er þar miðstöð kjarnorkurannsókna Rússlands.

Þar eru hannaðar og smíðaðar kjarnorkusprengjur og gerðar tilraunir á öllum sviðum kjarnorku, hvort sem er í friðsamlegum eða hernaðarlegum tilgangi.

Stjórnvöld segja að þeim muni takast að verja Sarov og jafnvel þótt eldarnir næðu þangað væri engin hætta á kjarnorkusprengingu.

Og þessir eldar í Rússlandi hafa áhrif um allan heim. Vegna þurrka og eldanna hafa yfirvöld bannað allan útflutning á hveiti.

Það hefur valdið stórfelldum verðhækkunum á hveiti og mun hækka matvælaverð um allan heim.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×