Innlent

„Ég vil ekki bíða og sjá lengur, ég vil bara að eitthvað sé gert."

Boði Logason skrifar
Ragna Erlendsdóttir móðir Ellu Dísar er nú á leið upp á spítala í London til að fara með Ellu Dís í rannsóknir
Ragna Erlendsdóttir móðir Ellu Dísar er nú á leið upp á spítala í London til að fara með Ellu Dís í rannsóknir
„Við erum bara að labba upp á spítala, enska kerfið er svolítið erfitt. Hún hefur ekki verið inni hérna lengi svo það tók tíma að finna hana í kerfinu," segir Ragna Erlendsdóttir, móðir Ellu Dísar, sem er núna stödd í London.

Ragna fór í skyndi með Ellu Dís til Englands í gærkvöldi vegna þess að hún var ósátt við vinnubrögð lækna á Barnaspítala Hringsins. Hún ákvað því að fara með Ellu Dís til London, án samráðs við íslenska lækna, og telur að Ella Dís sé hugsanlega komin með lifrabilun.

„Hún er að fara núna í blóðrannsóknir og fleira af því hún tekur ekki næringunni vel. Það er búið að tala við lækna sem þekkja hana," segir Ragna sem hefur ekki enn hitt sérfræðinga til að láta skoða Ellu Dís. „Við vorum á neyðarmóttökunni alveg til sjö í morgun svo sváfum við í allan dag. En hún er ennþá með línu í hálsinum, sem fer í æð til að taka blóð og svona, sem þarf að fylgjast vel með. Við vitum meira í seint í kvöld."

Eins og fyrr segir fór Ragna í skyndi til London í gær. Hún segir að flugið hafi gengið vel og þakkar Icelandair fyrir aðstoðina en Ella Dís fékk að liggja í tveimur sætum og Ragna sat hliðina á henni. „Ella Dís er ennþá svolítið þreytt alveg eins og áður en við fórum út. Hún er alveg allt í lagi, nema blóðsýnin sýndu sódíummagnið var að lækka, sem tengist lifrinni eða smáþörmunum, þeir eru ekki að ná að vinna rétt."

Hún segir að hún hafi orðið þreytt á að bíða í gær eftir svörum frá íslenskum læknum og því hafi hún ákveðið að fara út. „Þeir sögðu að þetta væri ekkert það alvarlegt, alveg eins og á föstudaginn þegar þeir sögðu að hún væri með hægðartregðu þegar hún var lífshættulega veik. Ég fékk bara nóg og fannst við ekki vera í öruggum höndum, þannig séð."

Læknarnir hér heima sögðu að hún væri góð í síðustu viku ef litið væri á tölur úr niðurstöðum úr rannsóknum. „Ég lýsti áhyggjum mínum eftir að hún fór að lækka á föstudaginn og á laugardaginn lækkaði hún enn meira. Hún var komin í lágmarkstölur á sunnudag, ég vildi fá svör afhverju þetta væri að gerast, en þeir voru einhvern veginn að gera lítið úr þessu og sögðu það sama og á föstudaginn. Sögðu mér bara að bíða og sjá, en ég vil ekki bíða og sjá lengur, ég vil bara að eitthvað sé gert."

„Við erum svo heppin að hún á enskan pabba og hefur sín tengsl hérna úti, ég gat því tekið þessa ákvörðun," segir Ragna en faðir Ellu Dísar var á leið upp á spítala þegar Vísir náði tali af móður hennar nú í kvöld.








Tengdar fréttir

Fór í skyndi með Ellu Dís á spítala í London

Ragna Erlendsdóttir fór í skyndi með dóttur sína, Ellu Dís, til Englands í gærkvöldi. Ragna var ósátt við vinnubrögð lækna á Barnaspítala Hringsins og ákvað, án samráðs við íslenska lækna, að fara með dóttur sína á spítala í London.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×