Erlent

Dæmdi gegn lögum um bann við hjónabandi samkynheigðra

Dómari í Boston í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að lög sem banna hjónaband milli einstaklinga af sama kyni brjóti í bága við stjórnarskrá landsins.

Það voru hagsmunasamtök sem berjast fyrir réttindum samkynheigðra sem hófu málsókn í mars í fyrra gegn alríkislögunum um bann við hjónabandi einstaklinga af sama kyni en lög þessi eru frá árinu 1996.

Í niðurstöðu sinni í málinu segir dómarinn, Joseph Tauro, að þessi lög brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti samkynheigðra til að njóta sömu verndar og aðrir hafa sem ganga í hjónaband.

Tauro segir einnig að sögulega séð hafi einstök ríki innan Bandaríkjanna getað sett sín eigin hjúskaparlög frá því fyrir tíma bandarísku byltingarinnar og að alrikislögin brjóti gegn þeim rétti ríkjanna.

Samkvæmt frétt um málið í blaðinu Boston Globe hafa samkynheigðir fagnað þessum úrskurði Tauro en fulltrúar dómsmálaráðuneytisins vilja ekki tjá sig um málið. Líklegt þykir að úrskurði Tauro verði áfrýjað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×