Viðskipti innlent

Ný efnahagsáætlun ef Icesave leysist ekki

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í Seðlabanka Íslands Arnór Sighvats­son aðstoðarseðlabankastjóri, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á blaðamannafundi í gær.
Í Seðlabanka Íslands Arnór Sighvats­son aðstoðarseðlabankastjóri, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á blaðamannafundi í gær. Fréttablaðið/GVA
Seðlabanki Íslands lækkaði í gær stýrivexti sína um 0,5 prósentustig, úr 9,5 prósentum í 9,0 prósent.

„Vaxtalækkun Seðlabankans nú er í takti við væntingar enda hefur bæði gengi krónunnar og þróun verðbólgu verið peningastefnunefndinni að skapi frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi í janúar. Gengi krónunnar hefur styrkst um 3,5 prósent frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi,“ segir í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka um vaxtaákvörðunina.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans kemur jafnframt fram að verðbólguaukning í febrúar hafi verið fyrirséð og gert ráð fyrir að verðbólga aukist einnig í þessum mánuði. „En undirliggjandi verðbólga hjaðni eigi að síður að markmiðinu seint á árinu,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri kynnti ákvörðun nefndarinnar og sagði hátt skuldatryggingarálag og óhagstæðar horfur um lánshæfismat ríkissjóðs vera rök fyrir tiltölulega varfærnum breytingum. Mesta hindrunin á vegi frekari vaxtalækkana væri óleyst deilan um Icesave-skuldbindingar ríkisins. Áhættusamt væri að afnema gjaldeyrishöft eða lækka vexti í stórum skrefum meðan lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og Norðurlöndum fengjust ekki og aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum væri ekki greiður.

Mat seðlabankastjóra er að efnahagslífið kunni að þróast á tvo ólíka vegu. Annar felur í sér að Icesave-deilan leysist fljótlega og þá verði hægt að halda áfram samkvæmt efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS, um leið og gjaldeyrishöft verði afnumin og vextir lækkaðir. Hinn felur í sér að samkomulag dragist á langinn og segir Már þá koma til greina að móta nýja efnahagsáætlun. Hann boðar nánari útlistun á kostunum tveimur þegar bankinn kynnir nýja hagspá í maí. „En eftir því sem tíminn líður aukast líkur á seinni leiðinni,“ segir Már.

Leysist ekki Icesave og bið verði á alþjóðlegu lánsfé telur Már engu síður að hægt verði að forða greiðslufalli ríkisins, gjaldeyrisforði landsins rétt hrökkvi til að greiða gjalddaga erlendra lána í lok næsta árs og á fyrri hluta 2012, samtals um 1,5 milljarða evra (tæplega 260 milljarða króna). „Og komi ekkert annað til verður landið mjög berskjaldað,“ segir hann.

Már segir augljóslega betri kost að ljúka Icesave sem fyrst með samningum og halda áfram á þeirri braut sem þegar hefur verið mörkuð, enda seinni kosturinn ekki sársaukalaus. Hann feli í sér lægra gengi, lægri raunlaun, hærri vexti og enn meira aðhald í ríkisfjármálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×