Viðskipti innlent

Met slegið í innflutningi á fjárfestingarvörum

Athygli vekur að innflutningur fjárfestingarvara nam ríflega fjórðungi alls vöruinnflutnings í júní. Fluttar voru inn slíkar vörur fyrir 10,2 milljarða kr. í mánuðinum, en það er mesti innflutningur slíkra vara í krónum talið í einum mánuði svo langt aftur sem tölur Hagstofu ná.

 

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að það virðist skjóta nokkuð skökku við að í botni kreppunnar þegar fjárfesting í hagkerfinu er í algeru lágmarki sé slíkt met slegið.

 

Þó verður að hafa í huga að fall krónu skekkir þessa mynd, og væntanlega var innflutningur fjárfestingarvara talsvert meiri í magni mælt á þensluárunum í kringum miðjan síðasta áratug. Á föstu gengi jókst innflutningur fjárfestingarvara um 80% á fyrri hluta ársins frá sama tíma í fyrra, en þar er vitaskuld verið að miða við tímabil þar sem alger ládeyða var í slíkum innflutningi.

 

Aukningin ber það samt með sér að hagkerfið kunni að vera að taka eitthvað við sér, að því er segir í Morgunkorninu.

 

Með fjárfestingarvörum er átt við hluti eins og skip, flugvélar og ýmsar vélar og vélbúnað svo dæmi séu tekin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×