Viðskipti innlent

Á hlutabréf fyrir sex milljarða

Jón S. von Tetzchner
Jón S. von Tetzchner

Jón S. von Tetzchner, forstjóri og annar tveggja stofnenda norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software, steig í vikunni úr forstjórastólnum og hefur innanbúðarmaður af dönsku bergi brotinn tekið við stýrinu.

„Mig langaði til að breyta til en mun halda áfram að gera mikið af því sem ég geri í dag og vera sýnilegur sem talsmaður fyrirtækisins þegar þarf," segir hann í skeyti til Fréttablaðsins og bætir við að hann muni eftirleiðis sinna ráðgjafarstörfum fyrir Opera Software en titlaður meðstofnandi.

Jón stofnaði fyrirtækið, sem þróar og rekur Opera-netvafra fyrir bæði tölvur, farsíma og nettengdan tækjabúnað, í félagi við félaga sinn, Geir Ivarsøy sem er látinn, fyrir fimmtán árum.

Í samtali við norska netmiðilinn E24 sagði hann brotthvarf sitt jafnast á við það að láta barn sitt í hendur annarra.

Opera Software er skráð í norsku kauphöllina og nemur markaðsverðmæti þess tæpum 2,5 milljörðum norskra króna, jafnvirði 44 milljarða íslenskra. Jón á 13,4 prósenta hlut í fyrirtækinu í gegnum einkahlutafélagið Mozart Invest og nemur virði hlutarins rúmum 329 milljónum norskra króna, jafnvirði 5,8 milljarða íslenskra króna á gengi gærdagsins.

Jón gaf stórfjölskyldu sinni hér og í Noregi einkahlutafélagið Digital Venture um mitt ár 2008. Inni í því voru 1,26 milljónir hlutir í Opera Software og nam verðmæti gjafarinnar þá 460 milljónum íslenskra króna. Fjölskyldan á hlutinn enn að mestu, að sögn Jóns.- jab












Fleiri fréttir

Sjá meira


×