Skoðun

Námslán takmörkuð

Sigurður Kári Árnason skrifar

Á dögunum voru samþykktar nýjar úthlutunarreglur LÍN, Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Breytingarnar miðuðu að því að ná fram sparnaði sem krafist var af menntamálaráðuneytinu. Lán til barnafólks voru skert þannig að upphæð með hverju barni lækkar eftir sem börnin verða fleiri á framfæri námsmanns. Þessi leið var valin m.a. með tilliti til þess að framfærsla Lánasjóðsins til barnafólks var ekki jafn slæm og til barnlausra. Er því niðurstaðan að allir námsmenn fá námslán sem ekki geta framfleytt þeim, líka barnafólk.

Hin sparnaðarleiðin var að herða á námsframvindukröfum svo námsmaður eigi rétt á láni úr sjóðnum. Samkvæmt eldri reglum þurfti námsmaður að ná 20 einingum á ári til að eiga rétt til láns úr sjóðnum en heilt skólaár eru 60 einingar. Voru kröfurnar hertar með þeim hætti að nú verður krafist 18 eininga á önn og tilfærslur milli anna verða ekki mögulegar. Nái námsmaður ekki þessum 18 einingum fær hann ekki krónu til framfærslu á þeirri skólaönn. Sjónarmið meirihluta stjórnar LÍN eru á þá leið að ljúki námsmaður ekki að lágmarki 18 einingum á önn sé hann ekki reglulegur námsmaður, líklega að vinna með skóla og þurfi því ekki á framfærslu sjóðsins að halda. Þessi rök eru alger markleysa enda er tekjuskerðing námslána svo há að námsmaður í 50% starfi á lágmarkslaunum með skóla fær vart greidd lán. Námsmannahreyfingarnar sem sæti eiga í stjórn LÍN hafa bent á að þetta snúist um námsmenn sem eru í fullu námi en af einhverjum ástæðum náðu ekki tilsettum árangri eina önn. Allir geta fallið á prófi. Í sumum háskóladeildum eru námskeið allt að 15 einingar og falli námsmaður í slíku námskeiði eru framfærslumöguleikar hans hrundir. Á þetta sérstaklega við í Háskóla Íslands þar sem með nýjum reglum eru upptökupróf ekki haldin nema í undantekningartilfellum. Þá verður að benda á að fall er ekki áfellisdómur um leti, í mörgum námskeiðum er fall vel yfir 50% og því meirihlutinn sem nær ekki í fyrstu tilraun.

Lánasjóður íslenskra námsmanna er jafnréttistæki sem á að veita öllum tækifæri til náms, óháð efnahag. Aukin niðurskurðarkrafa á LÍN mun á endanum eyðileggja þetta tæki og jafnframt verður æðri menntun ekki lengur réttur allra.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×