Erlent

Útflutningur styrkir evrulönd

Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ræða framtíðina.  Fréttablaðið/AP
Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ræða framtíðina. Fréttablaðið/AP
Enginn hagvöxtur mældist á evrusvæðinu á síðasta fjórðungi síðasta árs, samkvæmt upplýsingum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins (ESB).

Þetta er undir væntingum enda hafði verið reiknað með 0,1 prósents vexti.

Fjármálasérfræðingar eru almennt sammála um að heimshagkerfið sé að taka við sér eftir kreppuna þótt víða sé það viðkvæmt, þar með talið evrusvæðið. Bloom­berg-fréttaveitan bendir á að merkja megi góða byrjun á þessu ári enda hafi bjartsýni, lánsframboð og fjárfestingar aukist. Þá sé ólíklegt að efnahagsvandi Grikkja grafi undan evrunni.

Christopher Weil, hagfræðingur við Commerzbank í Þýskalandi, segir í samtali við Bloomberg útflutning halda uppi hagvexti evrusvæðisins næsta árið. Hann jókst um 1,9 prósent í lok síðasta árs og var umfram væntingar.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) segir í nýlegri hagspá gera ráð fyrir eins prósents hagvexti á evrusvæðinu á árinu. Það er tífalt minna en í Kína, sem mun leiða vöxt heimshagkerfisins.

Evópski seðlabankinn birtir vaxtaákvörðun eftir hádegi í dag. Gert er ráð fyrir óbreyttum vöxtum. Þeir standa nú í einu prósenti. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×